Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 210.400 manns starfandi á vinnumarkaði á þriðja fjórðungi þessa árs og mældist atvinnuþátttaka 79,8%. Frá sama ársfjórðungi árinu áður hefur starfsfólki fjölgað um um 7.300 manns og samhliða hefur mannfjöldi hér á landi aukist um hálft prósentustig.
Samkvæmt könnuninni voru að meðaltali 7.300 einstaklingar atvinnulausir á tímabilinu og mælist atvinnuleysi nú 3,4%. Atvinnuleysi hefur ekki mælst lægra á þennan mælikvarða síðan á lokafjórðungi ársins 2018. Þetta rímar nokkuð vel við tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi. Á þriðja ársfjórðungi mældist skráð atvinnuleysi 3% og í september var atvinnuleysi komið niður í 2,8%. Skráð atvinnuleysi hefur heldur ekki mælst svo lágt síðan í lok árs 2018.