Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi á sama stað og fyrir faraldur

Atvinnuleysi mælist nú á svipuðum slóðum og í byrjun árs 2019. Það má segja að vinnumarkaðurinn hafi náð vopnum sínum á nýjan leik eftir faraldurinn. Í raun er töluverður skortur á starfsfólki ef marka má könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem alla jafna verður leystur með erlendu starfsfólki.


Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,2% í júlí og er því svipað og  í síðasta mánuði þegar það mældist 3,3%. Atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt frá því að það mældist mest 11,6% í janúar 2021. Nú er atvinnuleysi á svipuðum stað og það var í ársbyrjun 2019, rétt fyrir fall WOW air. Á vormánuðum 2019 fór flugfélagið WOW air í gjaldþrot sem jók á atvinnuleysið en atvinnuleysi náði svo hámarki í faraldrinum.

Atvinnuleysi minnkaði allstaðar á landinu í júlí nema á Vestfjörðum þar sem það stóð í stað. Líkt og fyrri daginn mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum, eða um 5,5%, en hefur farið hjaðnandi mjög hratt síðan það mældist 26% á svæðinu í janúar 2021. Næst mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eða um 3,5%.

Hraður efnahagsbati er meginástæða þess að atvinnuleysi hefur hjaðnað jafn hratt og raun ber vitni. Ferðaþjónustan hefur náð vopnum sínum á nýjan leik. Það sem af er ári hafa nú 870 þúsund ferðamanna sótt landið heim og útlit fyrir að að ferðafólk verði að minnsta kosti 1,6 milljónir í ár eins og við fjölluðum nýlega um hér.

Mikil eftirspurn eftir starfsfólki

Í nýlegri könnun Gallup um stöðu og framtíðarhorfur stærstu fyrirtækja landsins telja nær 55% stjórnenda að skortur sé á starfsfólki og hefur hlutfallið ekki verið hærra svo langt aftur sem gögn ná. Mestur er skorturinn í byggingarstarfsemi, sérhæfðri þjónustu og ferðaþjónustu. Samkvæmt Vinnumálastofnun fækkaði atvinnulausum í öllum atvinnugreinum nú í júlí og kemur ekki á óvart að mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni.

Það hefur óneitanlega verið mikil áskorun fyrir fyrirtæki að finna starfsfólk til vinnu í geirum á borð við ferðaþjónstuna að undanförnu og erlent starfsfólk hefur í auknum mæli mannað laus störf í þeim geirum. Gögn um fjölda erlends starfsfólks frá Hagstofu Íslands ná þó einungis til marsmánaðar en sýna glögglega að erlendu starfsfólki hefur fjölgað talsvert og eru nú um 20% af öllu vinnuafli. Það er svipað hlutfall og þegar mest var árið 2019. Ætla má að erlendu starfsfólki hafi fjölgað enn frekar á síðustu mánuðum.

Framhaldið á vinnumarkaði

Vinnumarkaðurinn hefur nær alfarið jafnað sig á faraldrinum og er atvinnuleysið nú á svipuðum slóðum og fyrir faraldur. Hraður efnahagsbati hefur orðið til þess að störfum hefur fjölgað hratt og atvinnuleysi hjaðnað jafn verulega og raun ber vitni. Við teljum að atvinnuleysi muni haldast á þessum slóðum út árið.

Á komandi mánuðum renna kjarasamningar út, hver á fætur öðrum.  Helst má nefna Lífskjarasamninginn sem gildir til 1. nóvember næstkomandi og nær til yfir 100 þúsund launþega í stærstu stéttarfélögum landsins. Útlit er fyrir erfiðar kjaraviðræður í vetur, atvinnuleysi er lítið, verðbólga mikil og kaupmáttur launa farinn að rýrna eftir áratug af samfelldri kaupmáttaraukningu. Útkoma samninganna mun ráða miklu um bæði verðbólguþróun og þróun kaupmáttar næstu misserin.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband