Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,2% í júlí og er því svipað og í síðasta mánuði þegar það mældist 3,3%. Atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt frá því að það mældist mest 11,6% í janúar 2021. Nú er atvinnuleysi á svipuðum stað og það var í ársbyrjun 2019, rétt fyrir fall WOW air. Á vormánuðum 2019 fór flugfélagið WOW air í gjaldþrot sem jók á atvinnuleysið en atvinnuleysi náði svo hámarki í faraldrinum.
Atvinnuleysi minnkaði allstaðar á landinu í júlí nema á Vestfjörðum þar sem það stóð í stað. Líkt og fyrri daginn mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum, eða um 5,5%, en hefur farið hjaðnandi mjög hratt síðan það mældist 26% á svæðinu í janúar 2021. Næst mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eða um 3,5%.