Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársverðbólga hjaðnar lítillega og mælist 7,9%

Ársverðbólga hjaðnar lítillega í október samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtust í morgun. Það helsta sem vegur til hækkunar í októbermánuði er húsnæðisverð auk verðhækkana á matvörum. Það sem vegur hins vegar á móti er lækkun flugfargjalda og verðlækkun á hótelgistingu. Útlit er fyrir að verðbólga hreyfist á þröngu bili næstu mánuði en taki að hjaðna hratt á fyrri hluta næsta árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,6% í október samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar samkvæmt því lítillega úr 8,0% í 7,9%. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis hjaðnar einnig úr 7,7% í 7,3%.

Mæling októbermánaðar er aðeins undir okkar spá. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,4 – 0,75% hækkun VNV á milli mánaða og spáðum við 0,7% hækkun. Það helsta sem kemur okkur á óvart í mælingunni er að matur- og drykkjarvörur hækka talsvert meira í verði en við gerðum ráð fyrir. En á móti lækka flugfargjöld sem og verðskrár hótela og veitingastaða.

Hækkun íbúðaverðs hefur áhrif til hækkunar í október

Það helsta sem vegur til hækkunar í októbermánuði er reiknaða húsaleigan og hækkar hún um 2,0% (0,38% áhrif á VNV). Reiknaða húsaleigan byggist á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vaxtaþætti sem byggist á vöxtum verðtryggðra húsnæðislána. Markaðsverðið hækkar um 1,5% í október á milli mánaða og vaxtaþáttur hækkar sömuleiðis um 0,5%.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkar því aðeins meira en vísitala íbúðaverðs sem birtist fyrr í mánuðinum og hækkaði um 1,4% á milli mánaða. Munurinn á þessum tveimur mælingum er að Hagstofan mælir einnig verð á landsbyggðinni og í mánuðinum er húsnæði á landsbyggðinni að hækka mest eða um 2,5% á milli mánaða. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækka í verði um 1,4% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,0%.

Árshækkun íbúðaverðs hefur aukist aðeins sé miðað við síðustu tvo mánuði og mælist nú 3,2%. Það er þó talsvert breytt staða frá því sem var fyrir ári síðan en hæst mældist árshækkunin 25% í fyrrasumar. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað mest í verði undanfarið ár eða um 7,0%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað um 2,8% undanfarið ár en sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað í verði um 1,0% á sama tímabili.

Liðir sem hækka og liðir sem lækka

Að húsnæðisliðnum undanskildum eru það matar- og drykkjarvörur sem vega þyngst til hækkunar VNV í október og hækka um 1,0% á milli mánaða (0,14% áhrif á VNV). Lambakjöt hækkar í verði um 7,7% og vegur þungt í liðnum en einnig vega þungt verðhækkanir á mjólkurvörum og ávöxtum.

Liðurinn tómstundir og menning hækkaði um 0,95% (0,10% áhrif á VNV). Þar munar mestu um ríflega 11% verðhækkun á bókum og 2% verðhækkun á pakkaferðum til útlanda.

Ferðir og flutningar hækka einnig lítillega í verði eða um 0,2% (0,02% áhrif á VNV) þar sem vegast á lækkun á flugfargjöldum um 2,0% (-0,04% áhrif á VNV) og hækkun á eldsneytisverði um 1,0% (0,03% áhrif á VNV). Athyglisvert er að flugfargjöld lækka í október, en að Covid árunum undanskildum hækka flugfargjöld alla jafna í þessum mánuði.

Sá liður sem hafði mest áhrif til lækkunar í mánuðinum að undanskildri lækkun á flugfargjöldum er hótel og veitingastaðir. Liðurinn lækkaði um 1,3% (-0,07 áhrif á VNV) þar sem mestu munar um lækkun á verði gistingar.

Framhaldið á næstunni

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst frá því að verðbólga mældist hvað mest í ársbyrjun. Þó dregið hafi úr vægi húsnæðisliðarins frá ársbyrjun skýrir hann stærsta hluta verðbólgunnar í október. Af 7,9% ársverðbólgu í október skýrir húsnæðisliðurinn 2,5%. Þjónusta skýrir svo næst mest eða um 2,3% af heildarverðbólgunni. Það dregur úr vægi innfluttra vara í ársverðbólgunni og skýra þær nú 1,7% og að lokum skýrir framlag innlendra vara 1,5% heildarverðbólgunnar.

Við teljum að það dragi úr framlagi húsnæðisliðarins og innfluttra vara til heildarverðbólgunnar á næstu misserum og verðbólga muni fyrst og fremst eiga rót sína í hækkunum á innlendum vörum og þjónustu.

Við áætlum að ársverðbólga muni hreyfast á þröngu bili á næstu mánuðum. Í bráðabirgðaspá okkar  gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember, 0,6% í desember og 0,4% í janúar. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 7,5% í janúar. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga muni hjaðna hraðar á nýju ári þegar stórir hækkunarmánuðir detta útúr mælingunni. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 5,7% að jafnaði árið 2024 og 3,8% árið 2025.

Það ríkir enn talsverð óvissa um verðbólguhorfur. Nærhorfurnar velta mikið á íbúðamarkaðinum og innfluttu verðbólgunni. Þegar lengra líður á spátímann bætast fleiri óvissuþættir við. Sérstaklega má nefna kjaraviðræður sem styttist óðum í.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband