Árshækkun íbúðaverðs hefur aukist aðeins sé miðað við síðustu tvo mánuði og mælist nú 3,2%. Það er þó talsvert breytt staða frá því sem var fyrir ári síðan en hæst mældist árshækkunin 25% í fyrrasumar. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað mest í verði undanfarið ár eða um 7,0%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað um 2,8% undanfarið ár en sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað í verði um 1,0% á sama tímabili.
Liðir sem hækka og liðir sem lækka
Að húsnæðisliðnum undanskildum eru það matar- og drykkjarvörur sem vega þyngst til hækkunar VNV í október og hækka um 1,0% á milli mánaða (0,14% áhrif á VNV). Lambakjöt hækkar í verði um 7,7% og vegur þungt í liðnum en einnig vega þungt verðhækkanir á mjólkurvörum og ávöxtum.
Liðurinn tómstundir og menning hækkaði um 0,95% (0,10% áhrif á VNV). Þar munar mestu um ríflega 11% verðhækkun á bókum og 2% verðhækkun á pakkaferðum til útlanda.
Ferðir og flutningar hækka einnig lítillega í verði eða um 0,2% (0,02% áhrif á VNV) þar sem vegast á lækkun á flugfargjöldum um 2,0% (-0,04% áhrif á VNV) og hækkun á eldsneytisverði um 1,0% (0,03% áhrif á VNV). Athyglisvert er að flugfargjöld lækka í október, en að Covid árunum undanskildum hækka flugfargjöld alla jafna í þessum mánuði.