Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársverðbólga eykst og mælist 8% í september

Hækkun íbúðaverðs og útsölulok er helsta ástæða fyrir hækkun vísitölu neysluverðs í septembermánuði. Ársverðbólga eykst og mælist nú 8%. Útlit er fyrir að verðbólga verði á svipuðum slóðum út árið en mun svo hjaðna hratt í byrjun nýs árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,35% í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst við það úr 7,7% í 8,0%. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis eykst einnig úr 7,6 í 7,7%.

Mæling septembermánaðar er í takti við okkar spá. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,15 – 0,4% hækkun VNV á milli mánaða og spáðum við 0,4% hækkun. Það er ekkert sérstakt sem kemur okkur á óvart í mælingunni að þessu sinni. Hækkun á reiknaðri húsaleigu vegur þungt auk útsöluloka og verðhækkunar á eldsneyti. Á móti lækka flugfargjöld eins og venjan er í september.

Hækkun íbúðaverðs hefur áhrif til hækkunar

Það helsta sem vegur til hækkunar í septembermánuði er húsnæðisliðurinn. Liðurinn í heild hækkar um 0,7% (0,21% áhrif á VNV) þar sem greidd húsaleiga hækkar um 0,9% (0,03% áhrif á VNV) og reiknuð um 0,9% (0,16% áhrif á VNV). Innan reiknuðu húsaleigunnar er það markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem hækkar um 0,3% og vaxtaþátturinn um 0,6%. Markaðsverðið hækkar því minna heldur en vísitala íbúðaverðs sem birtist fyrr í mánuðinum og hækkaði um 0,7% á milli mánaða.

Ef rýnt er nánar í markaðsverð íbúðarhúsnæðis eru það fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hækka mest í verði á milli mánaða eða um 0,5%. Húsnæði á landsbyggðinni hækkar um 0,2% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkar um 0,3%.

Árshækkun íbúðaverðs eykst lítillega á milli mánaða og mælist nú 2,3%. Húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað mest undanfarið ár eða um 5,4%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hafa hækkað um 1,8% undanfarið ár en sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað í verði um 0,7% á sama tímabili.

Flestir aðrir liðir hafa áhrif til hækkunar

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn föt og skór sem vegur þyngst til hækkunar í september. Liðurinn hækkar um 3,7% (0,14% áhrif á VNV) en um áhrif útsöluloka er að ræða. Verð á fatnaði og skóm hefur nú hækkað um 9,6% á síðustu tveimur mánuðum en alla jafna eru útsölulok bæði í ágúst og september.

Matur og drykkjarvörur hækkaði einnig í verði um 0,5% (0,07% áhrif á VNV) en á undanförnum mánuðum hefur hægt talsvert á hækkunum á matvöru, bæði vegna minni verðhækkana erlendis en ekki síst vegna sterkari krónu. Einnig hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 0,7% (0,07% áhrif á VNV) þar sem þáttökugjöld í íþróttum og tómstundum vega þyngst til hækkunar í liðnum.

Þá hækkuðu aðrar vörur og þjónusta um 0,5% (0,03% áhrif á VNV) þar sem mest munar um verðhækkun hjá leikskólum og dagmæðrum sem er algengt að hækki á haustmánuðum.

Sá liður sem hefur mest áhrif til lækkunar í mánuðinum eru ferðir og flutningar. Liðurinn lækkaði um 1,2% (-0,18% áhrif á VNV). Þar vegur 9,8% lækkun á flugfargjöldum þyngst (-0,22% áhrif á VNV) en einnig lækkar verð á bílum um 0,4% (-0,02% áhrif á VNV). Það sem vegur hins vegar á móti er hækkun á eldsneytisverði um 2,3% (0,07% áhrif á VNV). Einnig lækkar liðurinn hótel og veitingastaðir um 0,4% (-0,02% áhrif á VNV).

Verðbólguhorfur á næstunni

Við teljum að ársverðbólga muni hreyfast á þröngu bili á næstu mánuðum. Í bráðabirgðaspá okkar  gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í október, 0,2% í nóvember og 0,6% í desember. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 7,5% í desember. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga muni hjaðna hraðar á nýju ári þegar stórir hækkunarmánuðir detta út úr mælingunni. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 5,4% að jafnaði árið 2024 og 3,7% árið 2025.

Vissulega ríkir enn talsverð óvissa um verðbólguhorfur. Nærhorfurnar velta mikið á íbúðamarkaðinum og innfluttu verðbólgunni. Þegar lengra líður á spátímann bætast fleiri óvissuþættir við. Sérstaklega má nefna kjaraviðræður sem styttist óðum í.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband