Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársverðbólga eykst lítillega

Ársverðbólga mælist 8,0% í nóvember og eykst lítillega á milli mánaða líkt og við spáðum fyrir um. Útlit er fyrir að verðbólga aukist aðeins í desember áður en hún tekur að hjaðna á nýju ári. Líklegt er að ársverðbólga hjaðni nokkuð hratt á fyrri hluta næsta árs þegar stórir hækkunarmánuðir detta út úr mælingunni.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,4% í nóvember samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst lítillega úr 7,9% í 8,0%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 7,2% undanfarna 12 mánuði.

Mæling nóvembermánaðar er í samræmi við okkar spá, við spáðum 0,4% hækkun VNV á milli mánaða. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,3 – 0,5% hækkun VNV á milli mánaða. Það sem vegur þyngst í mælingu nóvembermánaðar er hækkun íbúðaverðs en lækkun á flugfargjöldum vegur þar á móti.

Verðhækkanir á íbúðamarkaði

Það helsta sem vegur til hækkunar í nóvembermánuði er reiknaða húsaleigan og hækkar hún um 2,1% (0,40% áhrif á VNV). Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vöxtum verðtryggðra húsnæðislána. Markaðsverðið hækkar um 1,4% í nóvember á milli mánaða og vaxtaþáttur hækkar sömuleiðis um 0,7%.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkar því meira en vísitala íbúðaverðs sem birtist fyrr í mánuðinum og hækkaði um 0,9% á milli mánaða. Munurinn á þessum tveimur mælingum er að Hagstofan mælir einnig verð á landsbyggðinni og hækkar húsnæði á landsbyggðinni um 1,9% á milli mánaða. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækka þó mest í verði eða um 2,7% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% á milli mánaða.

Árshækkun íbúðaverðs hefur aukist aðeins síðustu mánuði og mælist nú 3,9%. Það er þó talsvert breytt staða frá því sem var í fyrrasumar þegar árs hækkunartakturinn fór mældist 25%. Undanfarið ár er það húsnæði á landsbyggðinni sem hefur hækkað mest eða um 7,8%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað í verði um 2,6% undanfarið ár og að lokum sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hafa hækkað um 1,9% á sama tímabili.

Aðrir helstu liðir í mælingunni

Það má í raun segja að flestir aðrir liðir vísitölu neysluverðs sigli lygnan sjó í mánuðinum. Sá liður sem vegur þyngst til hækkunar, að húsnæðisliðnum undanskildum, eru föt og skór. Liðurinn hækkar um 1,5% (0,06% áhrif á VNV). Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða eru húsgögn og heimilisbúnaður o.fl. sem hækkar í verði um 0,7% (0,04% áhrif á VNV), hótel og veitingastaðir sem hækkar um 0,4% (0,02% áhrif á VNV) og matvörur sem hækka í verði um 0,2% (0,02% áhrif á VNV).

Sá liður sem hefur mest áhrif til lækkunar í mánuðinum eru ferðir og flutningar. Liðurinn lækkar um 1,6% (-0,24% áhrif á VNV) þar sem flugfargjöld lækka um 12,2% (-0,24% áhrif á VNV) og eldsneyti um 0,8% (-0,02% áhrif á VNV). Undirliðurinn viðhald og viðgerðir hækkar þó í verði um 2,1% (0,04% áhrif á VNV).

Verðbólguhorfur

Verðbólguspáin okkar tekur engum breytingum að þessu sinni. Við teljum að ársverðbólga muni aukast lítillega í desembermánuði en taka að hjaðna í byrjun næsta árs. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs í desember, 0,4% í janúar og 0,8% í febrúar. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 7,1% í febrúar. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga muni hjaðna nokkuð hratt á nýju ári þegar stórir hækkunarmánuðir detta útúr mælingunni. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 6,1% að jafnaði árið 2024 og 3,9% árið 2025.

Óvissan um verðbólguhorfur ríkir enn. Nærhorfurnar velta mikið á íbúðamarkaðnum og innfluttu verðbólgunni. Ef þeir þættir reynast þrálátari mun verðbólga ef til vill mælast meiri en hér er spáð. Þegar lengra líður á spátímann bætast svo fleiri óvissuþættir við. Helst má þar nefna hvernig spilast úr kjaraviðræðum en nú styttist óðum í að kjarasamningar losna á nær öllum vinnumarkaðnum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband