Helstu atriði í uppgjöri ársins 2017
- Hagnaður eftir skatta var 13,2 ma. kr. samanborið við 20,2 ma. kr. árið 2016. Munurinn skýrist aðallega af einskiptistekjum af sölu Borgunar á hlutum í Visa Europe 2016. Arðsemi eigin fjár var 7,5% á árinu, samanborið við 10,2% árið 2016.
- Hagnaður af reglulegri starfsemi var 13,8 ma. kr. samanborið við 15,1 ma. kr.árið 2016.
- Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 10,3% á árinu 2017, samanborið við 10,7% árið 2016.
- Hreinar vaxtatekjur voru 30,0 ma. kr. (2016: ISK 31,8 ma. kr.), sem er 5,7% lækkun milli ára. Vaxtamunur var 2,9% (2016: 3,1%).
- Hreinar þóknanatekjur voru 13,8 ma. kr. samanborið við 13,7 ma. kr. árið 2016, sem er 0,2% hækkun milli ára.
- Stjórnunarkostnaður var 27 ma. kr., örlítið hærri en árið 2016. Þegar einskiptiskostnaður er undanskilinn hækkar kostnaður um 4,5% sem þýðir raunhækkun um 2,7% sé tillit tekið til verðbólgu. Þetta má aðallega rekja til fjárfestingar í tæknibúnaði þar á meðal Sopra kerfinu sem mun leysa af hólmi eldri grunnkerfi innlána og greiðslumiðlunar. Höfuðstöðvar bankans voru sameinaðar í nýjum höfuðstöðvum í Norðurturni í Kópavogi sem hafði tímabundinn viðbótarkostnað í för með sér.
- Kostnaðarhlutfall var 62,5% (2016: 56,9%), en sértækur bankaskattur og einskiptiskostnaður eru undanskildir við útreikning kostnaðarhlutfalls.
- Heildar eignir voru 1.036 ma. kr. (sept17: 1,078 ma. kr.). Útlán til viðskiptavina og lausafjársafn bankans voru samtals 92% af stærð efnahagsreiknings við lok tímabilsins.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 9,8% (67,3 ma. kr.) á árinu og voru 755 ma. kr. í lok árs. Ný útlán voru 199 ma. kr. á árinu og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans.
- Gæði eignasafns bankans halda áfram að batna, en hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga var 1,0% (sept17: 1,1%).
- Innlán frá viðskiptavinum lækkuðu á árinu sem er í samræmi við væntingar um 4,6% (27 ma. kr.) og voru 567 ma. kr. í árslok.
- Eiginfjárhlutfall var 24,1% og eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 22,6% í árslok, samanborið við 22,6% og 22,5% við lok september 2017.
- Lausafjárstaða bankans er sterk og umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Við árslok var lausafjárhlutfallið (LCR) 142% (sept17: 183%) og fjármögnunarhlutfallið (NSFR) var 117% (sept17: 115%).
- Vogunarhlutfall var 16,2% við árslok samanborið við 15,3% við lok sept 2017, sem telst hóflegt bæði í innlendum og erlendum samanburði.
- Íslandsbanki er eini bankinn á Íslandi með lánshæfismat frá tveimur alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum. Í janúar 2017 hækkaði Fitch Ratings mat sitt í BBB/F3 með stöðugum horfum og í október 2017 hækkaði S&P Global Ratings mat sitt í BBB+/A-2 með stöðugum horfum. Fitch staðfesti matið í desember 2017.
Helstu atriði á 4. ársfjórðungi
- Hagnaður eftir skatta var 3,1 ma. kr. (4F16: 4,6 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 6,9% á fjórðungnum, samanborið við 9,0% á 4F16. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 8,1% á fjórðungnum (4Q16: 11,7%).
- Hreinar vaxtatekjur voru 7,3 ma. kr. (4F16: 8,1 ma. kr.) og vaxtamunurinn var 2,8% (4F16: 3,2%).
- Hreinar þóknanatekjur voru 3,6 ma. kr. (4F16: 3,8 ma. kr.).
Birna Einarsdóttir, bankastjóri
Árið 2017 var tímabil breytinga og uppbyggingar fyrir okkur hjá Íslandsbanka. Við innleiddum nýtt skipulag, fullkláruðum flutning í nýjar höfuðstöðvar og endurnýjuðum grunnkerfi bankans. Við héldum áfram að undirbúa bankann fyrir breytt alþjóðlegt regluverk, tæknilegar áskoranir og að takast á við nýja keppinauta á markaði.
Þrátt fyrir þessar miklu breytingar gekk rekstur bankans mjög vel á árinu. Lánasafn bankans óx um 9,8% og námu ný lán 199 milljörðum króna og skilaði bankinn 13,2 milljarði króna hagnaði eftir skatta með arðsemi af reglulegri starfsemi upp á 10,3% sem er í samræmi við okkar markmið.
Lánshæfismat bankans hækkaði og stigum við frekari skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan með fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis á erlendum markaði frá árinu 2008.
Bankinn hélt stöðu sinni á árinu sem leiðandi bankastofnun á Íslandi í þjónustu við viðskiptavini en fimmta árið í röð mældist bankinn hæstur í Íslensku ánægjuvoginni og í flestum þáttum þjónustukannana á meðal einstaklinga og fyrirtækja og var jafnframt valinn besti bankinn á Íslandi að mati The Banker.
Við erum spennt að kynna ýmsar nýjungar á komandi misserum sem munu gagnast viðskiptavinum okkar og treysta stöðu Íslandsbanka sem leiðandi fjármálafyrirtækis á Íslandi.
Fjárfestatengsl
Símafundur með fjárfestum á ensku
Markaðsaðilum er boðið upp á símafund í dag, 14. febrúar, kl. 9.30 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.
Afkomufundur á íslensku
Í dag, 14. febrúar, kl. 11.30, munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn fer fram á íslensku og er haldinn á 9. hæð höfuðstöðva bankans að Hagasmára 3. Boðið verður upp á veitingar.
Fjárhagsdagatal og þögul tímabil
Upplýsingar um fjárhagsdagatal bankans og þögul tímabil má finna hér.