Seðlabankinn brást við versnandi verðbólguhorfum og vaxandi þenslumerkjum í hagkerfinu með verulegri hækkun stýrivaxta, sem fóru úr 2,0% í ársbyrjun í 6,0% í lok árs. Hækkun stýrivaxta endurspeglaðist í hækkun á raunvöxtum eftir því sem leið á árið 2022. Þannig hækkaði ávöxtunarkrafa á lengri flokkum verðtryggðra ríkisbréfa úr u.þ.b. 0,5% í tæp 2,0% á tímabilinu. Á lokamánuðum ársins tóku loks að koma fram vísbendingar um að aukið peningalegt aðhald væri tekið að hafa áhrif, t.d. á þróun íbúðaverðs og einkaneyslu.
Útlit fyrir að 2023 verði ár aðlögunar í efnahag Íslands
Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun hægari á yfirstandandi ári en verið hefur, eða ríflega 3%. Útflutningsvöxtur verður væntanlega helsti drifkraftur hagvaxtar en framlag neyslu og fjárfestingar til vaxtar minnkar talsvert milli ára. Að sama skapi eru horfur á að vöxtur innflutnings verði umtalsvert hægari á árinu 2023 en undanfarin ár.
Aukin umsvif í ferðaþjónustu munu væntanlega leika lykilhlutverk í vexti útflutnings á árinu enda eru horfur á að fjöldi ferðamanna kunni að fara yfir tvær milljónir í fyrsta skipti frá árinu 2019. Talsverð óvissa er þó um hvort, og þá hversu mikið, erfiðar efnahagsaðstæður muni draga úr ferðavilja fólks í Evrópu og Bandaríkjunum hingað til lands þótt enn sjáist þess lítil sem engin merki. Auk þess eru horfur á vaxandi útflutningi eldisfisks, áls og annarra iðnaðarvara ásamt auknum útflutningstekjum af hugverkanotkun svo nokkuð sé nefnt.
Hægari vöxtur kaupmáttar, áhrif hærra vaxtastigs og stöðugra atvinnuástand eru meðal áhrifaþátta á hægari vöxt einkaneyslu á yfirstandandi ári en verið hefur síðustu misseri. Þá er útlit fyrir að umtalsverður vöxtur íbúðafjárfestingar og hóflegur vöxtur fjárfestingar atvinnuvega vegi þyngra en samdráttur í opinberri fjárfestingu og fjármunamyndun vaxi nokkuð frá fyrra ári . Hærra vaxtastig og dvínandi væntingar um rekstrarumhverfi margra fyrirtækja er meðal þeirra þátta sem draga munu úr fjárfestingarvilja og -getu í atvinnulífinu.
Kjarasamningar sem gerðir voru á stórum hluta almenns vinnumarkaðar í lok árs 2022 gefa tóninn um launaþróun á árinu. Horfur eru á að laun hækki almennt um u.þ.b. 8% á yfirstandandi ári. Lægri tekjuhóparnir hækka hlutfallslega meira í launum en þeir tekjuhærri þó svo munurinn verði talsvert minni en síðustu ár þar sem um blöndu af krónutölu- og prósentuhækkun er að ræða að þessu sinni. Útlit er fyrir nokkuð spenntan vinnumarkað framan af ári og líklega mun atvinnuleysi áfram verða svipað að jafnaði á árinu og það var í lok síðasta árs, þ.e. ríflega 3% af vinnuafli.
Útlit er fyrir að gengi krónu verði áfram lægra næsta kastið en það var að jafnaði á síðasta ári. Þegar lengra líður á árið aukast þó líkur á einhverri styrkingu krónu með hagfelldari viðskiptajöfnuði. Horfur fyrir viðskiptajöfnuð eru þó nokkuð tvísýnni fyrir árið í heild en áður var vænst.