Ávarp stjórnarformanns

Íslenska hagkerfið hefur sýnt viðnámsþrótt


Árið 2019 einkenndist af varnarbaráttu fyrir íslenskt efnahagslíf eftir uppgangstíma undanfarinna ára. Segja má að ákveðinn varnarsigur hafi unnist í niðursveiflunni þar sem útlit er fyrir að ekki hafi orðið samdráttur í landsframleiðslu á árinu ólíkt því sem margir spáðu framan af ári, verðbólga hélst lítil og krónan stöðug. Ljóst er að viðnámsþróttur hagkerfisins er meiri en margir gerðu ráð fyrir. Það má ekki síst rekja til þess að almennt hefur verið haldið vel á spilunum í fyrirtækjarekstri og í ríkisfjármálum auk þess sem efnahagur heimila hefur haldist stöðugur.

Þörf á meiri fjárfestingu til að knýja áfram


Á Íslandi eru miklir framtíðarmöguleikar.Við getum verið stolt af þeirri virðissköpun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum tengdri orku, ferðamennsku, sjávarútvegi og nýsköpun. En betur má ef duga skal. Hægari vöxtur efnahagslífsins og blikur á lofti á alþjóðamörkuðum auka mikilvægi þess að hér þrífist fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á nýsköpun og íslensku hugviti. Til þess að líkt megi verða er nauðsynlegt að tryggja að nægt fjármagn sé í boði fyrir arðsamar fjárfestingar. Á undanförnum árum hafa lífeyrissjóðirnir nánast verið einu virku fjárfestarnir á fjármálamarkaði hér á landi. Í hvítbók ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er bent á að það sé nauðsynlegt að fá fleiri aðila að borðin til að efla virkni fjármálamarkaða. Þar koma fram áhugaverðar tillögur um hvernig hægt sé að gera slíkt, t.a.m. með því að auka frelsi einstaklinga við ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar eins og þekkist víða erlendis. Mikilvægt er að stjórnvöld og atvinnulífið fylgi eftir þeim tillögum sem komu fram í hvítbókinni til að efla íslenskan fjármálamarkað.

Fjárfestingar er einnig þörf til að tryggja frekari uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Þetta er síðast en ekki síst til að koma til móts við þá miklu fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur á undanförnum árum. Þó að staða ríkissjóðs sé góð er ekki æskilegt að ríkið standi eitt í því að fjármagna þau fjölmörgu innviðaverkefni sem þörf er á að ráðast í. Þar ber helst að nefna endurbætur á vegakerfi og flugvöllum og tryggja að allir landsmenn hafi greiðan og öruggan aðgang að rafmagni. Hér væri áhugavert að skoða frekari möguleika á tengingu á milli opinbers- og einkafjármagns líkt og gert var við gerð og rekstur Hvalfjarðarganganna á sínum tíma. Það hefur gefist ágætlega í nágrannalöndum okkar.

Endurreisn bankakerfisins og harðnandi


Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að ég tók við sem stjórnarformaður Íslandsbanka hefur orðið gríðarleg breyting á íslensku fjármálakerfi. Fyrir það fyrsta, er kerfið miklu minna en á árunum fyrir hrun enda er nánast öll starfsemi íslensku viðskiptabankanna á innanlandsmarkaði. Allri áhættu innan bankanna er mun betur stýrt og hefur samstarf við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann verið með ágætum. Þetta samstarf hefur styrkt áhætturamma bankans og treyst varnir hans gegn peningaþvætti svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur töluvert verið fjárfest í nútíma stafrænni tækni innan bankans á þessum tíma. Það hefur leitt af sér aukna sjálfvirkni og einfaldari ferla og þannig hjálpað til við að bæta reksturinn og auka öryggi.

Í annan stað hafa orðið miklar breytingar á samkeppnisumhverfinu með tilkomu fjártæknifyrirtækja og annarra markaðsaðila. Það er mikilvægt að bankarnir bregðist hratt við þessum breyttu ytri aðstæðum til að verða ekki undir í samkeppninni. Ekki má gleyma að ein af grunnforsendum þess að reksturinn gangi vel er að tryggja að viðskiptavinir og almenningur hafi trú og traust á bankanum og það hefur verið eitt af höfuðmarkmiðum okkar á undanförnum árum.

Regluverk og skattlagning íþyngjandi fyrir


Það var jákvætt skref að Alþingi samþykkti á árinu 2019 lækkun á bankaskattinum í 0,145% yfir nokkur ár. Það nægir þó engan veginn því að þrátt fyrir þetta verða skattar á íslenska banka enn um fimm sinnum hærri en í nágrannalöndunum í stað sjö sinnum hærri líkt og þeir voru fyrir lækkunina. Í áðurnefndri hvítbók er einnig rætt um að fyrirhugaðar lagabreytingar og stofnun sérstaks skilasjóðs sé tækifæri fyrir stjórnvöld til að endurskoða sértæka skatta og opinber gjöld á fjármálamarkaði heildstætt. Mikilvægt sé að horfa til framtíðar og leggja áherslu á eðlilega og sanngjarna álagningu sem ætlað er að byggja upp sjóði sem styrkja stoðir fjármálakerfisins og geta brugðist við áföllum í framtíðinni eins og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og skilasjóð. Ekki er hyggilegt að auka við þær miklu álögur sem lagðar hafa verið á íslensku bankana á undanförnum árum en þeir búa þar að auki við talsvert hærri eiginfjárkröfur en erlendir bankar. Allt þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á samkeppnisstöðu og arðsemi bankanna. Auk þess takmarkar það útlánavöxt verulega en það gengur þvert á tilraunir Seðlabankans til að örva hagkerfið. Framangreindir þættir gætu líka haft neikvæð áhrif á mögulega sölu Íslandsbanka. Undanfarið hefur verið rætt um að hefja söluferlið á bankanum. Það eru jákvæðar fréttir og yrði til mikilla hagsbóta fyrir landsmenn ef af yrði. Þar gætu til að mynda skapast tækifæri til frekari innviðafjárfestinga ríkissjóðs eða frekari niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs svo eitthvað sé nefnt.

Aukin sjálfbærni er fjárfesting til framtíðar


Í lok árs 2019 samþykkti stjórn Íslandsbanka nýja sjálfbærnistefnu fyrir bankann. Það var mikilvægur áfangi. Stefnan leggur áherslu á samþættingu sjálfbærnisjónarmiða við starfsemi bankans og grunnstefnu hans til viðbótar við arðsemismarkmið og önnur fjárhagsleg markmið. Stefnan er sett fram til að mæta kröfum hagaðila um aðgerðir á sviði sjálfbærni og er í samræmi við eigendastefnu ríkisins. Með þessu vill bankinn verða leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.

Íslandsbanki mun eiga frumkvæði að víðtæku samstarfi um ábyrga viðskiptahætti sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks efnahagslífs og styðja við aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum og um leið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir áskoranir í efnahagslífinu og aukna samkeppni, getur Íslandsbanki verið bjartsýnn á framtíðarhorfur sínar. Ég er þess fullviss að öflugir stjórnendur og hæfileikaríkt starfsfólk bankans muni tryggja hag hans á næstu árum og að bankinn muni njóta góðs af fjárfestingum sínum í nýrri tækni, ábyrgri stefnu og góðri þjónustu við viðskiptavini.