Umhverfi banka er sífellt að þróast í nýjar áttir sem felur í sér spennandi tækifæri en jafnframt ógnir sem vert er að huga að. Við töldum því nauðsynlegt á árinu 2019 að endurmeta stefnu bankans til að sjá hvar við gætum gert betur og leggja línurnar fyrir framtíðina.
Lagt var í mikla vinnu á fyrri hluta ársins við að endurskoða stefnuna útfrá rekstri bankans. Við fengum til liðs við okkur alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group, skipuðum vinnuhópa innan bankans, héldum fjölmargar vinnustofur og leituðum álits ytri aðila. Útkoman er ný stefna fyrir bankann sem kynnt var á stefnufundi með öllu starfsfólki á vormánuðum 2019.
Við skilgreindum nýtt hlutverk fyrir bankann sem „hreyfiafl til góðra verka“. Með þessu viljum við stuðla að ábyrgum, arðsömum og sjálfbærum rekstri og jafnframt hvetja viðskiptavini okkar til góðra verka. Við völdum okkur þrjú ný gildi „eldmóður, fagmennska og samvinna“ og ákváðum að viðhalda sömu framtíðarsýn um að vera „númer #1 í þjónustu.“ Þetta er að mínu mati það mikilvægasta sem við gerum, þ.e. að veita viðskiptavinum bestu þjónustuna hverju sinni. Við erum hins vegar meðvituð um að væntingar neytenda og skilgreining á góðri þjónustu hefur breyst hratt á undanförnum árum og því er náið samtal við viðskiptavini okkar mikilvægara en nokkru sinni.
Áfram verður unnið að því að einfalda og auka skilvirkni í rekstri bankans en jafnframt að hugsa stórt og skapa þannig samkeppnisforskot til framtíðar. Skilgreind hafa verið verkefni til fimm ára sem munu styðja við þau markmið sem bankinn ætlar að ná fram með nýrri stefnu. Mikill árangur hefur nú þegar nást við innleiðingu stefnunnar og framundan er frekari þróun á stafræna sviðinu sem við erum spennt að vinna í samstarfi við okkar viðskiptavini og samstarfsaðila.