Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Árshlutauppgjör Íslandssjóða 2020

Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingasjóða Íslandssjóða á fyrstu sex mánuðum ársins nam 8,2 milljörðum króna sem renna til yfir 11.000 viðskiptavina í formi ávöxtunar.


Starfsemi Íslandssjóða gekk vel á fyrri hluta ársins og skiluðu sjóðir félagsins góðri ávöxtun, en meðalávöxtun sjóða nam um 6% á ársgrunni. Áhrif tengd COVID-19 voru helst auknar sveiflur í ávöxtun hlutabréfasjóða en allir skuldabréfasjóðir og blandaðir sjóðir gáfu jákvæða ávöxtun á tímabilinu.

Íslandssjóðir hf. högnuðust um 169 milljónir króna á tímabilinu. Hjá félaginu starfar 21 sérfræðingur í eignastýringu, 10 konur og 11 karlar, sem nýta aðferðir ábyrgra fjárfestinga í allri eignastýringu. Þá stýra Íslandssjóðir eina græna skuldabréfasjóði landsins. Alls voru eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum 332 milljarðar króna í lok júní.

Afkoma Íslandssjóða hf. fyrstu sex mánuði ársins 2020

  • Hagnaður sjóða sem rennur til viðskiptavina í formi ávöxtunar nam 8.233 m.kr. samanborið við 8.010 m.kr. árið áður og jókst lítillega á milli ára.
  • Hagnaður félagsins eftir skatta var 169 m.kr. samanborið við 262 m.kr. fyrir sama tímabil 2019 og lækkaði um 35%, sem skýrist af lægri ávöxtun af eignum félagsins.
  • Þóknanatekjur námu 798 m.kr. samanborið við 733 m.kr. á sama tímabili 2019 og hækkuðu um 8,9%.
  • Rekstrargjöld námu 629 m.kr. samanborið við 586 m.kr. á sama tímabili 2019 og hækkuðu um 7,3%.
  • Eigið fé 30. júní 2020 var 1.666 m.kr. en var 2.433 m.kr. í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 45,8% í lok júní en má lægst vera 8,0%.
  • Í lok júní voru 22 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 187 milljörðum króna samanborið við 170 milljarða króna í árslok 2019.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

„Góður árangur í eignastýringu er ekki sjálfsagður á tímum sem þessum. Mikil eignadreifing, gott samval eigna og áhersla á ríkisskuldabréf og áhættuminni eignaflokka hefur skilað viðskiptavinum okkar góðri ávöxtun undanfarin ár. Áhrifa COVID-19 faraldursins gætir nú helst í sérhæfðum fjárfestingum sem tengjast ferðaþjónustu sem og í auknum sveiflum í skráðum hlutabréfum. Á heildina litið er ávöxtun sjóða betri en í fyrra, en ljóst er að framundan er tímabil lágra vaxta þar sem eignadreifing mun skipa lykilhlutverk í vel heppnaðri eignastýringu.“

Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka.  

Árshlutareikning félagsins er að finna hér á vef Íslandssjóða:

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri, í síma 844 2950.