Neikvæð virðisbreyting útlána endurspeglar breyttar efnahagshorfur
Hrein virðisbreyting útlána var neikvæð um 3.663 m.kr. á árinu 2019 samanborið við 1.584 m.kr. jákvæða virðisbreytingu á árinu 2018. Virðisbreytingin 2019 er að mestu tilkomin vegna aukinnar virðisrýrnunar hjá tilteknum viðskiptavinum, versnandi efnahagshorfa og óhagstæðrar niðurstöðu í dómsmáli. Virðisbreyting útlána á árinu 2019 var í heildina í samræmi við væntingar, þó heldur lægri en áætlun gerði ráð fyrir.
Skattar og gjöld hafa áfram mikil áhrif á hagnað og arðgreiðslugetu
- Tekjuskattur tímabilsins var 3,7 ma. kr. samanborið við 4,7 ma. kr. árið 2018. Virkur tekjuskattur var 30,1%, samanborið við 32,7% árið 2018. Bankaskatturinn var 3,5 ma.kr. árið 2019 samanborið við 3,3 ma.kr. árið 2018. Bankinn greiðir sérstakan 6% fjársýsluskatt á hagnað umfram 1 ma. kr. ásamt því að greiða framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, til Seðlabankans, til Umboðsmanns skuldara, fjársýsluskatt og tryggingagjald vegna starfsfólks. Framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á árinu 2019 var 936 m.kr. sem er lækkun um 237 m.kr. frá fyrra ári. Heildarskattar og gjöld voru 10,3 ma. kr. á árinu 2019 samanborið við 11,4 ma. kr. 2018.
- Með breytingu á lögum nr. 155/2010 í desember 2019 var lækkun sérstaks skatt á fjármálafyrirtæki samþykkt. Mun bankaskattur lækka línulega úr núverandi 0,376% fram til ársins 2023 þegar skatturinn verður 0,145%. Þrátt fyrir þessa lækkun ber fjármálageirinn á Íslandi enn mjög háa skattbyrði, bæði í samanburði við aðra geira á Íslandi og í samanburði við evrópskra banka.
Lækkun á hagnaði markast af neikvæðri virðisbreytingu útlána
- Hagnaður eftir skatta var 8,5 ma. kr. (2018: 10,6 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár á árinu var 4,8% á ársgrundvelli (2018: 6,1%). Hagnaður af reglulegri starfsemi var 10,5 ma. kr. (2018: 12,0 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6% á ársgrundvelli samanborið við 8,0% árið 2018. Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst saman um 1,5 ma. kr. milli ára sem skýrist af aukinni virðisrýrnun útlána.
- Arðsemi bankans er í takt við áætlun bankans en undir langtímamarkmiðum. Arðsemismarkmið bankans er eftir sem áður áhættulausir vextir að viðbættum 4-6%. Miðað við meðaltal áhættulausra vaxta á árinu 2019 væri markmiðið 7,7–9,7%. Til þess að ná markmiði um arðsemi var ráðist í ýmsar aðgerðir á árinu 2019. Meðal annars var mörkuð ný stefna fyrir bankann þar sem áfram verður unnið að einföldun í rekstri.