Allsnarpur samdráttur landsframleiðslu í ársbyrjun

Loðnubrestur setti sterkan svip á þjóðhagsreikninga fyrsta ársfjórðungs. Landsframleiðsla skrapp saman um 4% milli ára og er fjórðungurinn sá fyrsti í þrjú ár þar sem samdráttur mælist. Útlit er fyrir hægan hagvöxt í ár en trúlega mun vöxturinn glæðast að nýju næstu tvö ár.


Nýbirtir þjóðhagsreikningar Hagstofunnar eru til marks um að aðlögun hagkerfisins sem einkenndi síðasta ár hafi haldið áfram á fyrsta fjórðungi þessa árs. Verg landsframleiðsla (VLF) skrapp saman um 4% á fjórðungnum að raungildi frá sama tíma í fyrra. Er þetta í fyrsta skipti frá faraldursárinu 2020 sem samdráttur kemur fram með þessum hætti í tölum Hagstofu.

Útflutningsþróun hefur mikil áhrif

Tölurnar bera með sér að samdráttinn megi rekja að mestu til þróunar í útflutningsgreinum. Eins og myndin sýnir vegur neikvæð þróun birgðabreytinga þyngst í samdrættinum á 1. fjórðungi. Í frétt Hagstofu kemur fram að meginskýring neikvæðrar þróunar í birgðabreytingum felist í loðnubresti þetta árið. Birgðir sjávarafurða jukust þannig einungis um ríflega 3 ma.kr. á fjórðungnum en á sama tíma í fyrra nam aukningin tæpum 39 ma.kr. og hafði stór loðnuvertíð mikil áhrif á birgðaaukninguna þá.

Enn fremur skrapp útflutningur vöru og þjónustu saman um ríflega 3% að raungildi en innflutningur jókst á sama tíma um tæp 2%. Samdráttur útflutnings skrifast að stærstum hluta á tæplega 4% samdrátt í þjónustuútflutningi en vöruútflutningur skrapp saman um tæpa prósentu á sama tíma. Á innflutningshliðinni vó tæplega 7% vöxtur þjónustuinnflutnings þyngra en nærri 1% samdráttur í vöruinnflutningi. Framlag utanríkisviðskipta var samkvæmt Hagstofunni neikvætt um 1,4% á tímabilinu. Hagstofan tekur raunar fram í frétt sinni að hafa verði fyrirvara um gæði gagna sem notuð eru til útreiknings á þjónustuviðskiptum en telur þó að heildaráhrif af uppfærslu þeirra gagna muni ekki hafa mikil áhrif á heildarmyndina.

Fjárfesting eykst en einkaneysla stendur í stað

Vöxtur í fjárfestingu milli ára nam 2,4% á fjórðungnum. Er meiri seigla í fjárfestingunni en vænst var en tölurnar ríma þó allvel við tölur um innflutning fjárfestingarvara það sem af er ári. Fram kemur í frétt Hagstofunnar að rót vaxtarins sé að stærstum hluta tæplega 16% aukning í íbúðarfjárfestingu milli ára. Á sama tíma stóð fjármunamyndun atvinnuvega nánast í stað og opinber fjárfesting skrapp saman um tæp 6%, en Hagstofan tekur raunar fram að talsverð óvissa ríki enn um síðastnefndu töluna.

Einkaneysla stóð nánast í stað að raungildi á fyrsta ársfjórðungi eftir samdrátt tvo fjórðungana á undan. Er sú niðurstaða í takti við hagvísa á borð við kortaveltu og kaupmáttarþróun launa. Mikill samdráttur var í bifreiðakaupum heimila og annarri neyslu varanlegra neysluvara en á móti vógu aukin útgjöld vegna ferðalaga erlendis  sem og vegna húsnæðis og heilsugæslu. Þá óx samneysla um 1,2% milli ára en sá liður endurspeglar nýtingu heimilanna á opinberri þjónustu á borð við heilbrigðiskerfi og menntun.

Útlit fyrir lítinn hagvöxt í ár

Eftir kraftmikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 varð viðsnúningur í vaxtartaktinum á síðasta ári. Innan ársins 2023 fór hagvöxtur frá því að vera 8,9% á 1. fjórðungi ársins niður í 0,6% á 4. fjórðungi. Á seinni helmingi síðasta árs skruppu einnig þjóðarútgjöld, sem endurspegla innlenda eftirspurn, saman milli ára í fyrsta sinn frá fyrsta fjórðungi faraldursársins 2021. Útflutningur skrapp auk þess saman á lokafjórðungi ársins og snarpur samdráttur í innflutningi skýrði að mestu þann litla vöxt sem þó mældist. Alls nam hagvöxtur 4,1% á síðasta ári.

Í nýbirtri þjóðhagsspá spáum við því að hagvöxtur mælist 0,9% á þessu ári. Það er býsna hægur vöxtur í sögulegu tilliti og árið markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli. Þróun innan ársins verður væntanlega spegilmynd af þróun síðasta árs í þeim skilningi að vöxtur verður lítill framan af en aukinn þróttur færist síðan í neyslu og fjárfestingu þegar lengra líður á árið.

Á næsta ári teljum við að hagvöxtur verði 2,3%. Hraðari vöxtur neyslu og fjárfestingar ræður mestu um aukinn hagvöxt milli ára auk þess sem vöruútflutningur sækir í sig veðrið á ný. Á árinu 2026 er útlit fyrir 2,6% hagvöxt og vegur vaxandi innlend eftirspurn þyngra en hægari útflutningsvöxtur það ár. Myndarlegri vöxtur fjárfestingar og einkaneyslu þegar frá líður skrifast ekki síst á aukna fjárfestingargetu fyrirtækja með lækkandi vaxtastigi og allgóðan kaupmáttarvöxt heimila eftir því sem verðbólga hjaðnar.

Spáin nú hljóðar upp á talsvert hægari vöxt á spátímanum en spá okkar frá janúar síðastliðnum. Skrifast það ekki síst á hægari vöxt í ferðaþjónustu og einkaneyslu en við væntum áður. Það endurspeglar svo m.a. áhrif meiri spennu í hagkerfinu undanfarið sem og minni kaupmáttarvaxtar og hærra vaxtastigs á spátímanum en í fyrri spá.

Hinar nýbirtu tölur Hagstofu ríma vel við spá okkar fyrir árið í heild, þótt vissulega sé um fyrstu bráðabirgðatölur að ræða sem verða endurskoðaðar síðar á árinu. Stóra myndin er því sú að hagkerfið heldur áfram að kólna eftir stutt en kröftugt þensluskeið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband