Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aftur viðskiptaafgangur og erlenda staðan aldrei betri

Talsverður viðskiptaafgangur mældist á 3. ársfjórðungi eftir halla á fyrri helmingi ársins. Líklega verður nokkur viðskiptahalli í ár en horfur eru á myndarlegum afgangi næstu ár. Erlendar eignir að frádregnum skuldum voru ríflega 41% af VLF í septemberlok og hafa aldrei verið meiri.


Afgangur á viðskiptajöfnuði var 13,1 ma.kr. á 3. ársfjórðungi eftir halla á fyrstu tveimur fjórðungum ársins. Þegar lá fyrir að tæplega 13 ma.kr. afgangur var af vöru- og þjónustujöfnuði eins og við fjölluðum um í nýlegu Korni. Má fyrst og fremst þakka þann afgang myndarlegum bata í ferðaþjónustu á tímabilinu. Í tölum Seðlabankans kemur fram að 7,9 ma.kr. afgangur var á frumþáttatekjum en rekstrarframlög skiluðu 7,7 ma.kr. halla á fjórðungnum. Síðarnefndi liðurinn endurspeglar m.a. framlög til alþjóða- og hjálparstofnana sem og peningasendingar milli landa.

Umtalsverður og vaxandi vöruskiptahalli endurspeglar að verulegu leyti þann bata sem orðið hefur í innlendri eftirspurn eftir því sem árinu hefur undið fram. Aukin neysla og fjárfesting kallar á meiri innflutt aðföng. Auk þess kallar vöxtur í ferðaþjónustunni sjálfri á aukin aðföng sem og fjárfestingarvörur á borð við farartæki af öllum stærðum og gerðum. Það er hins vegar fagnaðarefni að hagfelld þjónustuviðskipti vegi á ný þyngra á metunum í þróun viðskiptajafnaðar en vöruskiptahalli. Væntanlega mun sú þróun einnig einkenna komandi misseri ef ekki verður langvarandi bakslag í bata ferðaþjónustunnar.

Afgangur af frumþáttatekjum sótti nokkuð í sig veðrið á milli ársfjórðunga en var þó í rýrari kantinum miðað við síðustu ár. Eins og sést á myndinni hefur leitnin í frumþáttatekjunum verið til minni afgangs undanfarið eftir býsna myndarlegan afgang árin á undan. Ef skyggnst er undir húddið er þó ekki um alslæmar fréttir að ræða þar sem þessi þróun skýrist að hluta af því að innlend fyrirtæki í erlendri eigu eru ekki að bókfæra tap í sama mæli og áður. Er hér væntanlega um að ræða fyrirtæki í orkufrekum iðnaði að verulegu leyti en verð á afurðum þeirra hefur hækkað mikið síðustu fjórðunga. Að öðru leyti endurspeglar afgangur frumþáttatekna að stórum hluta hagfellda erlenda stöðu þjóðarbúsins auk þess sem launatekjur Íslendinga erlendis frá eru nokkru hærri en launagreiðslur innlendra aðila til erlends starfsfólks sem ekki er með lögheimili hérlendis.

Halli í ár en afgangur í vændum

Viðskiptahalli á fyrstu 9 mánuðum ársins nemur tæplega 48 mö.kr. Er hallinn fyrst og fremst vegna mikils vöruskiptahalla, sem svo aftur skýrist að stórum hluta af myndarlegum vexti einkaneyslu og fjárfestingar eins og rakið er hér að ofan.

Í uppfærðri þjóðhagsspá okkar þar sem myndarlegur loðnukvóti er tekinn með í reikninginn gerum við ráð fyrir því að viðskiptahalli muni reynast í námunda við 45 ma.kr. á árinu í heild. Í ljósi nýjustu talna gæti hallinn þó orðið eitthvað minni. Horfur eru hins vegar góðar þegar skyggnst er fram á veg enda mun bati í ferðaþjónustu og myndarleg loðnuvertíð fljótt segja til sín í stórauknum útflutningstekjum ef að líkum lætur. Við áætlum að viðskiptaafgangur fari yfir 100 ma.kr. á næsta ári og verði enn ríflegri árið 2023. Viðskiptahallinn í ár er því væntanlega undantekning frá þeirri ánægjulegu reglu sem verið hefur undanfarinn áratug að utanríkisviðskipti landsins séu réttu megin við núllið.

Sögulega góð erlend staða

Ekkert lát er á batanum á erlendri stöðu þjóðarbúsins þrátt fyrir nokkurn viðskiptahalla á fyrri árshelmingi. Í lok 3. ársfjórðungs mældist hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um 1.294 ma.kr. sem samsvarar rúmlega 41% af vergri landsframleiðslu (VLF). Hefur erlenda staðan aldrei verið betri. Hreyfingar um fjármagnsjöfnuðinn bættu stöðuna um 89 ma.kr. á 3. fjórðungi og gengis- og verðbreytingar höfðu 86 ma.kr. jákvæð áhrif á sama tíma þrátt fyrir að verð á erlendum verðbréfamörkuðum hefði að jafnaði lækkað um tæpa prósentu á milli fjórðunga.

Forvitnilegt er að rýna í samsetningu erlendu stöðunnar þar sem samsetning eigna- og skuldahliðar hennar er nokkuð mismunandi. Til að mynda eru erlendar lánaskuldbindingar, þ.e. skuldabréf í eigu erlendra aðila og beinar lántökur, töluvert umfram erlendar eignir innlendra aðila af því tagi. Skýring þessa liggur í því að ríkissjóður, bankakerfið og stærstu fyrirtæki landsins fjármagna sig að hluta á alþjóðamörkuðum en erlend lánaumsvif bankakerfisins eru á sama tíma takmörkuð og fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum eignum eru að mjög litlum hluta í skuldabréfum, innstæðum í erlendum bönkum eða tengdum eignum. Þótt hreinar erlendar skuldir af framangreindu tagi séu jafnvirði ríflega 1.334 ma.kr. ber að halda til haga að þær eru að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Vextir af þessum skuldum eru því býsna lágir um þessar mundir.

Aftur á móti er eign innlendra aðila í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum ríflega 1.990 ma.kr. umfram erlendar skuldir af þessu tagi. Þarna munar mestu um lífeyrissjóðina sem áttu í lok september jafnvirði 2.189 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum samkvæmt tölum Seðlabankans.

Þá heldur Seðlabankinn sjálfur á drjúgum hluta af erlendum eignum þjóðarbúsins. Gjaldeyrisforði bankans var í septemberlok jafnvirði 939 ma.kr. Gjaldeyrisforðinn aflar hins vegar sáralítilla fjármagnstekna þar sem Seðlabankanum ber að ávaxta hann á áhættulitlum skammtímavöxtum sem um þessar mundir eru nærri sögulegu lágmarki.

Hin sterka erlenda eignastaða þjóðarbúsins er að mati okkar mjög mikilvægt styrkleikamerki fyrir lítið opið hagkerfið með smæstu fljótandi mynt heims. Til að mynda hefur hún orðið til þess að áhyggjur innlendra sem erlendra aðila af fjármagnsflótta og gjaldeyriskreppu í kjölfar faraldursins hafa ekki látið á sér kræla enda væru slíkar áhyggjur á litlum rökum reistar. Það er engin tilviljun að samfara batnandi erlendri stöðu og viðvarandi viðskiptaafgangi hefur stöðugleiki krónunnar aukist og verðbólga verið skaplegri en á fyrri tíð þrátt fyrir að verðbólgan hafi vissulega aukist undanfarið líkt og í öðrum löndum. Með viðsnúningi til viðskiptaafgangs á komandi misserum eru svo góðar líkur á að erlenda staðan batni enn frekar. Þessi mikilvæga stoð undir þjóðarbúið og áframhaldandi bata á lífskjörum hérlendis styrkist því væntanlega áfram.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband