Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áfram vex kaupmáttur þrátt fyrir bakslag

Vinnumarkaður hefur til þessa reynst öllu þróttmeiri en ýmsir óttuðust í kjölfar bakslags í ferðaþjónustu á síðasta ári. Öfugt við fyrri bakslög vex kaupmáttur launa ennþá og útlit er fyrir að svo verði áfram.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í janúar um 0,7% frá fyrri mánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,9% og er það hraðasti árstaktur frá því í maí síðastliðnum. 12 mánaða hækkunartaktur launavísitölunnar var að meðaltali um 9% á árunum 2016-2017 og hægt hefur talsvert á vextinum síðan þá.

Á síðasta ári tók hækkunartaktur launa að róast verulega. Í ársbyrjun 2019 mældist 12 mánaða hækkun launavísitölunnar 5,8% og fór takturinn lækkandi með hverjum mánuði síðan, að undanskildum aprílmánuði þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Nú í janúar hækkaði þó 12 mánaða taktur launavísitölunnar í fyrsta sinn frá því í apríl síðastliðnum.

Í janúar hækkaði vísitala kaupmáttar launa um 1,4% frá mánuðinum á undan, enda lækkaði vísitala neysluverðs um 0,7% í janúarmánuði. Á síðasta ári var árstaktur kaupmáttarvaxtar launa að meðaltali um 1,8%. Árshækkun kaupmáttar launa mældist 3,2% í janúar og hefur ekki verið hærri frá því í apríl síðastliðnum. Eitthvað líf virðist vera í launahækkunum um þessar mundir miðað við nýliðið ár þó að vöxturinn sé tiltölulega hóflegur í samanburði við árin 2016-2018.

Hægist um á vinnumarkaði

Þótt síðasta ár hafi vissulega verið tími mótbyrs á vinnumarkaði hefur hann enn sem komið er reynst öllu þróttmeiri en margir óttuðust fyrst eftir fall WOW-Air í fyrravor. Atvinnuleysi hefur vissulega aukist og hlutfall starfandi af mannfjölda á vinnualdri lækkað. Eins og sjá má af myndinni lækkaði síðarnefnda hlutfallið talsvert í kjölfar gjaldþrots WOW-Air í lok mars og var á seinni helmingi síðasta árs orðið svipað og það var árið 2013 þegar uppsveiflan í ferðaþjónustu var rétt nýhafin. Þá jókst atvinnuleysi um tæpa prósentu í fyrravor og hefur verið á svipuðum slóðum síðan ef tekið er tillit til árstíðasveiflu. Atvinnuleysishlutfallið var 3,8% af mannafla á þann kvarða á seinni helmingi síðasta árs og þar með svipað og um miðbik áratugarins. Rétt er þó að halda því til haga að hér er í báðum tilfellum um að ræða hlutföll sem þættu endurspegla góðæri á vinnumarkaði í flestum nágrannalöndum enda hefur atvinnuþátttaka löngum verið mikil og atvinnuleysi lítið hérlendis á alþjóðlegan mælikvarða.

Fyrirsjáanlegt er að atvinnuleysi muni aukast á þessu ári og líklegt er að atvinnuþátttaka minnki samhliða, líkt og gjarnan gerist í niðursveiflu á vinnumarkaði hérlendis. Ýmsir kjósa slíkan tíma til að bæta við sig námi, ungir foreldrar fara síður út á vinnumarkaðinn og þeir sem eru við endalok síns starfsferils kjósa að fara fyrr á eftirlaun en ella þegar á móti blæs á vinnumarkaði. Í þjóðhagsspá okkar í janúarlok áætluðum við að atvinnuleysi myndi að jafnaði nema 4,4% af vinnuafli þetta árið. Gangi það eftir verður 2020 mesta atvinnuleysisár frá árinu 2014 og því miður er óvissan á þá lund að atvinnuleysið verði frekar meira en minna. Það skiptir hins vegar sköpum um hvort atvinnuleysi verður stærra og langvinnara vandamál hvort bakslagið á vinnumarkaði smitast frá greinum á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð yfir á vinnumarkaðinn í heild. Þar skipta hagstjórnarviðbrögð hins opinbera og Seðlabankans ekki síst máli.

Hægur einkaneysluvöxtur á þessu ári

Þróun einkaneyslu helst talsvert í hendur við kaupmátt launa og hefur þróun þessara tveggja stærða verið býsna áþekk undanfarin áratug. Á undanförnum misserum hefur dregið úr vexti einkaneyslu á sama tíma og hægt hefur á vexti kaupmáttar.

Á þriðja fjórðungi síðasta árs mældist vöxtur einkaneyslu 2,1% á meðan vöxtur kaupmáttar mældist 1,2%. Samkvæmt tölum Hagstofu var vöxtur kaupmáttar launa á fjórða ársfjórðungi 1,7% og því áframhaldandi aukning enda hjaðnaði verðbólga talsvert á þeim tíma.

Þó að heldur hafi bætt í kaupmátt launa í þessum mánuði er enn útlit er fyrir að einkaneysluvöxtur verði hægur á næstu misserum eins og við fjölluðum um í þjóðhagsspá okkar. Aukið atvinnuleysi, hægari fólksfjölgun ásamt kortaveltutölum eru meðal þeirra hagvísa sem benda til þess. Í þjóðhagsspá okkar spáum við því að einkaneysluvöxturinn verði hægastur á þessu ári og verði um 1,7% og hækki svo í 2,7% á næsta ári.

Það er hins vegar nokkurt nýmæli í íslenskri hagsögu að kaupmáttur skuli enn fara vaxandi þrátt fyrir efnahagslegan mótvind upp á síðkastið. Sú staðreynd, ásamt heilbrigðari fjárhag heimila að jafnaði en raunin var á árum áður, er ein helsta skýring þess að við teljum að heimilin muni dempa hagsveifluna að þessu sinni fremur en auka á hana eins og oftast hefur verið raunin hér á landi.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband