Hagstofa birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir júlímánuð. Launavísitalan lækkaði um 0,1% á milli mánaða en síðast lækkaði vísitalan á milli mánaða í sama mánuði í fyrra. Árshækkun launavísitölunnar mælist nú 8,1% og hefur verið með svipuðu móti síðastliðið ár. Stór hluti launafólks fékk tvær samningsbundnar launahækkanir á þessu tímabili, fyrst um áramótin og svo hagvaxtaraukann sem bættist við mánaðarlaun í apríl síðastliðnum.
Áfram rýrnar kaupmáttur launa
Launavísitalan lækkaði örlítið á milli mánaða en árstaktur vísitölunnar mælist 8%. Kaupmáttur launa heldur áfram að rýrna enda mælist verðbólga mikil. Útlit er fyrir að kaupmáttur launa muni halda áfram að rýrna á næstu mánuðum.
Þrátt fyrir talsverða hækkun launa undanfarið ár hefur verðbólgan elt hækkunina uppi. Kaupmáttur launa dróst saman um 1,3% á milli mánaða í júlí og hefur kaupmáttur launa nú dregist saman um 1,7% á ársgrundvelli. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar kaupmáttur mælist minni en á sama tíma ári fyrr en fram að því hafði kaupmáttur launa vaxið samfellt frá árinu 2010. Líklegt þykir að þessi þróun haldi áfram enda mælist verðbólga nú 9,9% og þrátt fyrir að útlit sé fyrir að hún taki að hjaðna á næstunni mun hún áfram mælast allmikil á næstu misserum.
Laun hækkað mest í ferðaþjónustu
Frekara niðurbrot á launavísitölunni nær til maímánaðar síðastliðins. Sé vísitalan skoðuð eftir helstu launþegahópum er þróunin svipuð og verið hefur, starfsmenn sveitarfélaga hafa hækkað mest í launum eða um 9,4% síðastliðið ár. Næst á eftir hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 8,3% og laun ríkisstarfsmanna um 7,5%. Í lífskjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir og þar sem laun hjá starfsfólki sveitarfélaga eru yfirleitt lægri en hjá hinum framangreindu hópunum skýrir það að hluta þennan mun.
Líkt og sést á myndinni hér að ofan hafa laun í ferðaþjónustu hækkað hvað mest á síðastliðnu ári eða um nær 12% á meðan laun í fjármálageiranum hafa lækkað minnst eða um 6%. Laun annarra atvinnugreina hafa hækkað með svipuðu móti, á milli 8-9% á ársgrundvelli.
Ferðaþjónusta hefur komist á fullt skrið og viðsnúningurinn verið hraður. Frá áramótum hafa um 870 þúsund ferðamenn sótt landið heim. Það hefur verið mikil áskorun fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að manna laus störf og kemur það því lítið á óvart að laun í geiranum hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni.
Kaupmáttur heldur áfram að rýrna þrátt fyrir launahækkanir
Þrátt fyrir að kjarasamningar renni út á komandi mánuðum er síðasta þrep hagvaxtaraukans í apríl á næsta ári. Útlit er fyrir að hagvaxtaraukinn verði sá sami og síðast, en hann er reiknaður út frá hagvexti á mann. Miðað við þjóðhagsspá okkar og mannfjöldaspá Hagstofu verður hagvöxtur á mann 2,7% í ár sem myndi þýða að laun í apríl á næsta ári hækka um 10.500 kr á taxtalaun og 7.875 hjá öðrum.
Við spáum því að verðbólga verði áfram mikil út árið. Ólíklegt er að laun munu hækka hraðar en verðlag á næstunni og því er frekari rýrnun kaupmáttar í vændum. Ef verðbólga tekur að hjaðna hratt á næsta ári mun þróunin svo snúast við á nýjan leik. Á næstu mánuðum munu kjarasamningar renna út og útlit fyrir erfiðar kjaraviðræður í vetur. Útkoma samningana mun ráða miklu bæði um launaþróun og um verðbólguþróunina, og þar með þróun kaupmáttar næstu misserin.