Kortavelta innlendra greiðslukorta nam ríflega 117 ma.kr. í nóvember síðastliðnum og jókst um 4% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengis krónu skrapp kortavelta heimila saman um 2,5% á milli ára í nóvember. Kortavelta hefur nú skroppið saman að raunvirði átta mánuði í röð, en samdrátturinn nú er heldur minni en í októbermánuði. Gæti ein skýringin á því verið ákveðin breyting á neyslumynstri landans þar sem stórir afsláttardagar í nóvember eru að verða æ umfangsmeiri í neyslu landsmanna.
Áfram mælist samdráttur í kortaveltunni
Nóvembermánuður var áttundi mánuðurinn í röð þar sem samdráttur mældist í kortaveltu á milli ára að raunvirði. Líklega hefði kortavelta dregist meira saman ef ekki væri fyrir stóra afsláttardaga í nóvember sem eru orðnir vinsælli með hverju árinu. Flest bendir til þess einkaneysluvöxturinn verði hægari en áður var spáð.
Kortavelta bæði innanlands sem og erlendis skruppu saman að raunvirði í nóvembermánuði, sem er sama þróun og hefur verið upp á síðkastið. Samdráttur í kortaveltu innanlands mældist tæplega 2% á sama tíma og kortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 5%. Þrátt fyrir samdrátt í kortaveltu erlendis var landinn nokkuð á faraldsfæti í nóvember líkt og við fjölluðum nýlega um hér. Alls fóru 43 þúsund Íslendingar um Keflavíkurflugvöll í nóvembermánuði sem samsvarar 26% fjölgun á milli ára. Það er talsverð breyting frá fyrri mánuðum þar sem samdráttur í ferðalögum Íslendinga hefur verið raunin. Það verður áhugavert að sjá hvernig ferðalög Íslendinga munu þróast á næstu mánuðum en þrátt fyrir þessa aukningu í ferðalögum milli ára í nóvember er neyslan erlendis að dragast saman.
Kortavelta erlenda korta hérlendis var 17,5 ma.kr. í nóvember á sama tíma og kortavelta Íslendinga erlendis var ríflega 24 ma.kr. Þetta þýðir að kortaveltujöfnuður í nóvembermánuði er neikvæður í fyrsta sinn frá því í maí síðastliðnum. Gjaldeyrisútflæði tengt kortaviðskiptum hefur því væntanlega verið ríflega 6 ma.kr. í mánuðinum. Ferðagleði landans í nóvember á sama tíma og heldur færri ferðamenn sóttu Ísland heim vegna óvissu á Reykjanesskaga er líklega helsta ástæðan fyrir neikvæðum kortaveltujöfnuði.
Nóvember er netverslunarmánuður ársins
Í gögnum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) sést glögglega hvað nóvember er stór netverslunarmánuður. Tæplega 17% af allri greiðslukortaveltu fór í gegnum netið í nóvember síðastliðnum en aðra mánuði ársins er hlutfall netverslunar að jafnaði um 13%. Ástæðan er sú að afsláttardagar að bandarískri fyrirmynd hafa verið að ryðja sér til rúms hér á landi á undanförnum árum og eru að verða æ stærri hluti neyslu landans í nóvembermánuði.
Afsláttardagarnir fara þó ekki einungis fram á netinu heldur einnig í búðunum sjálfum. Ástæða fyrir minni samdrætti í kortaveltu í nóvember heldur en í október á milli ára gæti skýrst af því að fólk er farið að nýta sér þessa afsláttardaga í meiri mæli og vera tímanlega að versla jólagjafir. Ef það er í raunin mun neysla í desember líklega verða minni sem því nemur.
Samdráttur í einkaneyslu á lokafjórðungi ársins?
Hægt hefur talsvert á vexti einkaneyslu á árinu. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneyslan um 2,5% og nú á þriðja ársfjórðungi mældist í fyrsta sinn frá árinu 2020 samdráttur í einkaneyslunni. Viðsnúningurinn á einkaneyslunni hefur verið snarpur og ljóst að háir vextir og mikil verðbólga eru farin að hafa mikil áhrif á neyslu landans. Ýmsar vísbendingar eru um að samdráttur verði einnig í pípunum á lokafjórðungi ársins. Ein helsta vísbendingin er samdráttur í kortaveltunni í október og nóvember en einnig lágar væntingar landsmanna þar sem Væntingavísitala Gallup mælist nú í sínum lægstu gildum frá því snemma í faraldrinum.
Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var vöxtur einkaneyslu 1,3%. Í þjóðhagsspá okkar frá því í haust spáðum við 1,9% einkaneysluvexti á árinu. Miðað við einkaneyslutölur þriðja ársfjórðungs og hagvísa fyrir október og nóvember eru meiri líkur en minni að vöxturinn verði enn hægari en við spáðum í haust. Einkaneysla hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu misseri og ljóst er að hagkerfið er að kólna hratt hvað þetta varðar. Vaxtahækkanir Seðlabankans eru því að okkar mati farnar að skila talsverðum árangri í því að draga úr neyslu og auka sparnað. Að öðru óbreyttu teljum við líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé á lokametrunum, ef það er nú ekki þegar á enda runnið.