Óhætt er að segja að nýbirtir þjóðhagsreikningar Hagstofunnar fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins endurspegli verulegan vaxtarkraft í íslensku hagkerfi og merki um vaxandi þenslu. Hagvöxtur reyndist 7,3% á þriðja ársfjórðungi og var vöxturinn að stærstum hluta drifinn af auknum útflutningi en að honum slepptum vó einkaneysla mest til vaxtar á tímabilinu. Framlag fjárfestingar og samneyslu var til muna minna og líkt og undanfarna fjórðunga vó mikill innflutningsvöxtur á móti framangreindum liðum.
Áfram kröftugur hagvöxtur á 3. ársfjórðungi
Útflutningur og einkaneysla drifu að mestu kröftugan hagvöxt á 3. ársfjórðungi. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagvöxtur 7,4% og hefur ekki verið meiri frá árinu 2007. Útlit er fyrir að verulega hægi á vexti á komandi fjórðungum.
Líkt og við fjölluðum um nýlega réði endurkoma ferðaþjónustunnar sem lykilútflutningsgreinar mestu um myndarlegan útflutningsvöxt á þriðja ársfjórðungi. Alls jókst útflutningur um tæp 23% á tímabilinu frá sama tíma fyrir ári. Um það bil 9/10 þess vaxtar má rekja til aukins þjónustuútflutnings, þar sem ferðaþjónustan skýrir bróðurpartinn, en 1/10 var tilkominn vegna aukningar í vöruútflutningi.
Innflutningur var einnig í örum vexti á tímabilinu og nam vöxtur hans 18% milli ára að raungildi. Þar var samsetningin hins vegar allt önnur en á útflutningshliðinni og skrifuðust 2/3 hlutar hans á innflutta þjónustu en 1/3 á vöruinnflutning. Þessi ólíka samsetning endurspeglar mismunandi þátt vöru- og þjónustuviðskipta í utanríkisviðskiptum þetta ár líkt og raunin var fyrir faraldur þar sem afgangur af þjónustuviðskiptum togast á við vöruskiptahalla.
Meiri vöxtur á útflutningshliðinni en innflutningsmegin speglast svo í jákvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar sem nemur 2,5%. Svo myndarlega hafa utanríkisviðskipti ekki stutt við hagvöxt síðan á lokafjórðungi ársins 2019. Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa utanríkisviðskiptin þó ekki ýtt undir vöxt þar sem framlag þeirra var talsvert neikvætt á fyrsta fjórðungi ársins.
Einkaneysla heldur áfram á fljúgandi ferð
Einkaneysla jókst um 7,2% að raunvirði á þriðja fjórðungi miðað við sama tímabil árið áður. Á fyrstu 9 mánuðum ársins hefur einkaneysla vaxið um 10,9% að raunvirði frá fyrra ári. Þetta er hraðasti einkaneysluvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins í 17 ár. Þessi vöxtur einkaneyslunnar rímar vel við önnur gögn líkt og kortaveltu, farþegagögn frá Keflavíkurflugvelli og gögn um innflutning neysluvara sem allt hefur bent til þess að einkaneyslan hafi verið á fljúgandi ferð. Til að mynda var kortavelta í örum vexti á þriðja ársfjórðungi og þá sérstaklega erlendis þegar hún náði nýjum methæðum í krónum talið og mældist í fyrsta sinn yfir 25 milljörðum í júní- og júlímánuði.
Heimilin stóðu flest hver allsterk fjárhagslega í gegnum faraldurinn og söfnuðu talsverðum sparnaði. Má ætla að almenningur hafi verið að njóta fyrsta sumarsins án sóttvarnatakmarkana og bera þessar tölur glögglega þess merki. Þrátt fyrir mikla verðbólgu, hækkandi vexti og hjaðnandi væntingar er fjárhagsstaða þorra heimila ansi sterk um þessar mundir. Það verður þó að teljast líklegt að hægja muni á einkaneysluvextinum á næstu fjórðungum og til að mynda hefur hægt aðeins á vexti í kortaveltu ásamt því að væntingar heimila hafa hjaðnað upp á síðkastið.
Fremur hóflegur vöxtur í fjárfestingu undanfarið
Fjárfestingarvöxtur var aðeins 2,2% á 3. ársfjórðungi. Þar sem miklar sveiflur eru í þeim tölum milli fjórðunga er þó gagnlegra að horfa til fyrstu 9 mánaða ársins í heild. Á því tímabili óx fjármunamyndun alls um 5,2%. Þar togaðist á tæplega 8% vöxtur í fjárfestingu atvinnuvega og nærri 12% vöxtur í opinberri fjárfestingu annars vegar, en ríflega 5% samdráttur í íbúðafjárfestingu hins vegar.
Tilfærsla á tilteknum fasteignum frá atvinnuvegum til hins opinbera í bókhaldi Hagstofunnar setur þó svip sinn á framangreindar tölur. Sé horft fram hjá þeim áhrifum jókst atvinnuvegafjárfesting um tæp 6% á þriðja fjórðungi en fjárfesting hins opinbera skrapp saman um 0,7% á sama tíma. Undirliggjandi þróun fjárfestingar var því til meiri vaxtar í atvinnuvegafjárfestingu og að sama skapi minni vaxtar í opinberri fjárfestingu en framangreindar tölur gefa til kynna þótt heildarmyndin breytist ekki.
Íbúðafjárfesting sækir í sig veðrið á næstunni
Eins og áður er nefnt skrapp fjármunamyndun í íbúðarhúsnæðis saman um rúmlega 5,4% á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tíma fyrir ári. Takmarkað framboð hefur verið á nýjum íbúðum á íbúðamarkaði en framboðið hefur þó verið að aukast að undanförnu. Þessar tölur koma okkur á óvart en samkvæmt talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Samtaka iðnaðarins voru í september 35% fleiri íbúðir í byggingu miðað við sama tíma í fyrra. Við teljum því líklegt að íbúðafjárfestingin muni sækja í sig veðrið á lokafjórðungi ársins og mun vöxturinn líklega einnig færast í meiri mæli yfir á næsta ár. Þrátt fyrir að íbúðamarkaður hafi snöggkælst í sumar vegna hærri vaxta og hertari lánaskilyrða mælist enn talverð eftirspurn á íbúðarmarkaði og ljóst er að þörf er á auknu framboði nýrra íbúða til að mæta þessari þörf.
Tölur Hagstofunnar bera þess merki að íslenskt efnahagslíf hefur rétt úr kútnum eftir Kórónukreppuna og raunar gott betur á sumum sviðum. Þannig var landsframleiðsla (VLF) á föstu verðlagi tæplega 4% meiri á þriðja ársfjórðungi en á sama tíma fyrir faraldur þótt VLF á mann hafir raunar mælst ríflega 2% minni á sama kvarða.
Útlit er fyrir talsverðan vöxt milli ára á lokafjórðungi ársins ef marka má vísbendingar um einkaneyslu, fjárfestingu og þjónustuútflutning það sem af er fjórðungnum. Innflutningsvöxtur mun þó vegar allþungt á móti en Hagstofan uppfærði í morgun bráðabirgðatölur um vöruskipti í október og var vöruskiptahalli samkvæmt uppfærðum tölum ríflega 58 ma.kr., sá mesti í sögunni. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í septemberlok áætluðum við að hagvöxtur á árinu yrði ríflega 7%. Tölur Hagstofunnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins benda til þess að sú spá verði nærri lagi. Í kjölfarið er útlit fyrir mun hægari vöxt næstu tvö ár.