Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,28% milli mánaða og 12 mánaða verðbólga lækkar fyrir vikið úr 5,4% í 5,1%. Við höfðum spáð 0,4% hækkun VNV og að 12 mánaða verðbólga myndi mælast 5,2%. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er mun minni hækkun reiknaðrar húsaleigu en sést hefur í langan tíma og minni en flestir höfðu spáð. Hins vegar hækkaði matvara meira í verði en við áttum von á. Að öðru leyti þróuðust allir liðir nokkurn veginn í takt við okkar væntingar. Mæling októbermánaðar var sú síðasta til að líta dagsins ljós fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar þann 20. nóvember.
Áfram hjaðnar verðbólga
12 mánaða verðbólga hjaðnaði í október og útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði. Hærri flugfargjöld og matvöruverð höfðu mest áhrif til hækkunar í mánuðinum en kólnandi leigumarkaður virðist vera að skila sér af nokkrum krafti inn í mælingar. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir því að verðbólga fari undir 5% í næsta mánuði.
Verðhækkanir matvöru og hærri flugfargjöld vega þyngst til hækkunar
Verð á matvöru hækkaði nokkuð mikið í október frá fyrri mánuði eftir tvær lækkanir í röð mánuðina á undan. Verð á mat og drykk hækkaði um 0,84% (0,12% áhrif á VNV). Að okkar mati er um að ræða nokkurs konar leiðréttingu frá því að innkoma nýs aðila á dagvörumarkað setti verðlækkunarþrýsting á samkeppnisaðila á þriðja ársfjórðungi. Hluti hækkunarinnar er tilkominn vegna verðhækkana á kjöti en einnig má sjá að verð á ávöxtum hækkaði mikið og skilaði meiri hækkunaráhrifum á VNV (0,06%) en kjöt (0,04%). Við eigum von á hóflegri hækkunartakti matvöru næstu mánuði.
Að verðhækkun matvöru undanskilinni skiluðu hærri flugfargjöld í mánuðinum mestu framlagi til hækkunar VNV. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 6,6% (0,12% áhrif á VNV) í takt við okkar spá. Hærri flugfargjöld í október eru hluti af árstíðarsveiflu sem hefur ekki verið sérstaklega kröftug árin eftir faraldur. Við eigum von á því að flugfargjöld lækki í nóvember en hækki svo á ný í desember, líkt og venjan er.
Hægir verulega á hækkun húsnæðisliðar
Við áttum von á því að hægja myndi á hækkun reiknaðrar húsaleigu í mánuðinum samhliða kólnandi leigumarkaði og minni hækkunum af völdum vísitölutryggingar leigusamninga. Sú varð raunin nema hvað að það hægði enn meira á en við áttum von á, reiknuð húsaleiga hækkaði einungis um 0,1% (0,02% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 0,4% (0,08% áhrif á VNV).
Næstu misseri eigum við ekki von á miklum hækkunum reiknaðrar húsaleigu og útilokum ekki lækkun. Haldi kólnun leigumarkaðar áfram næstu misseri og verðbólguþróun verði í takt við væntingar, gæti verðbólga til skamms tíma verið ofmetin.
Kílómetragjald tekið inn í mælingar Hagstofu
Samhliða birtingu VNV í morgun birti Hagstofa upplýsingar um áhrif upptöku kílómetragjalda í stað olíugjalds. Þar segir að niðurfelling eða lækkun olíugjalda eða annarra vörugjalda af eldsneyti hafi áhrif til lækkunar VNV. Flestir voru meðvitaðir um það. Hagstofan bendir einnig á að litið verði á kílómetragjaldið með sama hætti og veggjöld, og upptaka þess muni þar með hafa áhrif til hækkunar VNV. Hvað varði endanleg heildaráhrif á vísitöluna segir Hagstofa ekki hægt að svara því hver þau yrðu nema fyrir liggi endanleg útfærsla og vogir fyrir þann tímapunkt sem breytingarnar tækju gildi.
Verðbólguþróun næstu mánuði
Tölur dagsins benda til minnkandi verðbólguþrýstings og við teljum að sú þróun haldi áfram næstu mánuði. Kólnandi leigumarkaður gæti einnig haft veruleg áhrif til lækkunar verðbólgu næstu misseri. Við gerum ráð fyrir því að verðbólga fari inn fyrir efri vikmörk Seðlabankans á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Verðlag erlendis hefur þróast með hagfelldum hætti en verðbólga er í mörgum löndum komin í markmið og hvarvetna hefur verðbólguþýstingur minnkað. Í uppfærðri bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir eftirfarandi:
- Nóvember: 0,1% hækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)
- Desember: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)
- Janúar: 0,1% lækkun VNV (ársverðbólga 4,8%)
Í þessari spá er gert ráð fyrir því að áhrif upptöku kílómetragjalds og niðurfellingar bensín- og olíugjalda vegi nokkurn veginn jafnt. Það er þó ekki gefið en, líkt og Hagstofa bendir á, munu endanleg áhrif fara eftir útfærslu og vogum á viðkomandi undirvísitölum fyrir þann tímapunkt sem breytingarnar taka gildi.