Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áfram eykst verðbólgan

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,43% í október. Mælist 12 mánaða verðbólga nú 3,6% en hún fór lægst í 1,7% í janúar síðastliðnum. Áhugavert verður að fylgjast með þróun verðbólgunnar næstu misserin.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Mæling októbermánaðar er líkt og fyrri daginn í efri kantinum miðað við birtar spár en við spáðum 0,2% hækkun fyrr í mánuðinum. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 4,1% undanfarna 12 mánuði sem þýðir að húsnæðisliðurinn er enn að vega til minnkunar á verðbólgu í októbermánuði. Liðurinn matur og drykkur hækkaði töluvert meira en við var búist. Hækkun hans nam 1,0% í októbermánuði og hefur ekki verið meiri síðan í maí. Ætla má að veiking krónunnar sé farin að koma fram í verðlagi matvæla í ríkari mæli í ljósi þess að krónan hefur ekki sótt í sig veðrið eftir veikingu hennar í sumarlok. Verðbólgan hefur farið vaxandi það sem af er ári og hefur þar gengið mest að segja en áhugavert er að undanfarna 3 mánuði hafa ólíkir liðir haft mest áhrif til hækkunar í einstökum mánuðum. Föt og skór vógu þyngst til hækkunar í ágúst, húsgögn og heimilisbúnaður í september og matur og drykkur í október. Eldsneytisverð lækkaði örlítið á milli mánaða en liðurinn hafði verið tiltölulega stöðugur mánuðina á undan eftir talsverðar sveiflur fyrr á árinu. Reiknuð húsleiga hækkaði meira en við áætluðum en umtalsverð seigla hefur verið á fasteignamarkaði samhliða sögulega lágum húsnæðisvöxtum.

Matvæli vega þyngst til hækkunar

Það helsta sem greinir á milli spár Greiningar Íslandsbanka og októbertalna Hagstofunnar liggur í vanmati okkar á umtalsverðri verðhækkun matvæla eins og fjallað er um hér að framan. Einnig hækkaði liðurinn húsnæði, hiti og rafmagn talsvert í október. Nam hækkunin í heild 0,4% á milli mánaða (0,12% áhrif í VNV). Ferðir og flutningar hækkuðu lítillega frá fyrri mánuði en undir þann lið fellur m.a. rekstur, verð og viðhald bifreiða, varahlutir og flutningar á vegum, í lofti og á sjó (0,03% áhrif í VNV). Föt og skór hækka einnig áfram duglega (0,05% áhrif í VNV) þó hægt hafi á þeim hækkunartakti. Forvitnilegt verður að fylgjast með þróun þess liðar í desember þegar eftirspurnin er öllu jafna meiri en í öðrum mánuðum.

Samsetning verðbólgunnar gerbreytt frá áramótum

Frá ársbyrjun hefur verðbólga vaxið úr 1,7% í 3,6%. Eins og myndin ber með sér er stærstur hluti vaxandi verðbólgu til kominn vegna veikingar krónu. Frá áramótum hefur krónan veikst að jafnaði gagnvart öðrum gjaldmiðlum um u.þ.b. 15% og hefur það vitaskuld mikil áhrif á verð innfluttra vara. 2,2% af núverandi verðbólgu, eða nærri 2/3 hlutar, skýrist þannig af verðhækkun innfluttra vara að eldsneyti undanskildu á undanförnum 12 mánuðum. Til samanburðar var framlag innfluttra vara til verðbólgunnar 0,2% í desember sl., eða 1/10 af heildar verðbólguþrýstingi. Verðhækkun á innlendum vörum skýrir 0,8% af núverandi verðbólgu en þar ber að hafa í huga að kostnaður við framleiðslu þeirra felst oft að stórum hluta í innfluttum aðföngum.

Einnig er forvitnilegt að rýna í framlag húsnæðisliðar til verðbólgunnar. Það hefur haldist býsna stöðugt það sem af er ári, var 0,7% um áramót en er 0,5% í október. Það endurspeglar að mestu á hversu stöðugri siglingu íbúðamarkaður hefur í stórum dráttum verið þrátt fyrir mikinn efnahagslegan sjógang það sem af er ári.

Lækkandi vextir á húsnæðislánum hafa svo spilað umtalsvert hlutverk í þróun húsnæðisliðar í verðbólgunni og togast þar á tveir þættir: Annars vegar hafa lægri vextir húsnæðislána dregið töluvert úr hækkun reiknaðrar húsaleigu frá því sem ella væri. Má þar nefna að m.v. októbermælingu VNV hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um ríflega 7% frá sama tíma í fyrra. Reiknuð húsaleiga í VNV hækkaði hins vegar aðeins um 2,2% og má því segja að vaxtaþáttur reiknuðu húsaleigunnar hafi vegið upp meira en helming af áhrifum hækkandi íbúðaverðs á tímabilinu. Hins vegar ber að hafa í huga að lægri vextir íbúðalána eiga líklega stóran þátt í því að íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka þrátt fyrir Kórónukreppuna og því óljóst hver endanleg áhrif af lækkandi vöxtum eru á verðbólgustigið í dag.

Áfram seigla á húsnæðismarkaði

Reiknuð húsaleiga hækkaði rækilega á milli mánaða en mikið líf hefur verið á fasteignamarkaði þrátt fyrir mesta atvinnuleysi sem sést hefur í rúman áratug. Hækkandi markaðsverð fasteigna vegur þungt til hækkunar. Áhrif reiknaðrar húsaleigu á vísitölu neysluverðs var um 0,09% í október. Sá liður samanstendur af markaðsverði íbúðarhúsnæðis og áhrifum vaxta af íbúðalánum. Eins og fjallað er um hér að framan hefur vaxtaþátturinn vegið talsvert á móti áhrifum hækkandi íbúðaverðs á reiknuðu húsaleiguna.

Verðbólgan yfir markmiði árið 2021

Enn ríkir töluverð óvissa með framhaldið en haustbylgja kórónuveirunnar hefur lagst þungt á flest lönd heimsins. Íslenska hagkerfið stendur þó enn sem komið er á sterkum stoðum. Þar veltur hins vegar mikið á framvindu ferðaþjónustunnar og hvenær fer að rofa til í COVID-faraldrinum fyrir alvöru.

Höfundar


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband