Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi 2024

Hagnaður af rekstri Íslandsbanka hf. nam 5,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024.


Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu fyrsta ársfjórðungs 2024

  • Hagnaður af rekstri nam 5,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 (1F23: 6,2 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 9,8% á ársgrundvelli (1F23: 11,4%).
  • Hreinar vaxtatekjur námu 12,1 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 og drógust saman um 2,4% samanborið við 12,4 milljarða króna á 1F23.
  • Vaxtamunur var 3,0% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 3,2% á sama ársfjórðungi 2023.
  • Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 5,0% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023 og námu samtals 3,3 milljörðum króna á fjórðungnum.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 236 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við fjármagnstekjur að fjárhæð 538 milljónir króna á 1F23.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 1.098 milljónum króna en voru 43 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2023.
  • Stjórnunarkostnaður nam 7,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024, samanborið við 7,0 milljarða króna á 1F23, sem er 5,0% hækkun milli ára.
  • Kostnaðarhlutfall bankans var 44,9% á fjórðungnum, sem er í samræmi við afkomuspá bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og nær fjárhagslegu markmiði bankans um að kostnaðarhlutfall sé lægra en 45%. Kostnaðarhlutfallið var 42,1% á 1F23.
  • Virðisrýrnun nam 704 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 samanborið við virðisrýrnun um 675 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2023. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var 0,23 prósentustig á ársgrundvelli á fyrsta ársfjórðungi 2024 samanborið við 0,22 prósentustig á sama ársfjórðungi 2023.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 24,9 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 2,0% frá fjórða ársfjórðungi og voru 1.248 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2024.
  • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 28,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2024 frá fjórða ársfjórðungi 2023, eða um 3,4%. Innlán frá viðskiptavinum námu 880 milljörðum króna í lok fjórðungsins.
  • Eigið fé nam 215,7 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins, samanborið við 224,7 milljarða króna í lok árs 2023.
  • Eiginfjárhlutfall var 23,6% í lok fyrsta ársfjórðungs 2024, að meðtöldum hagnaði 1F24, samanborið við 25,3% í árslok 2023. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 19,9%, að meðtöldum hagnaði 1F24, samanborið við 21,4% í árslok 2023, sem er 420 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila.

Nýju ári fylgja jafnan bæði tækifæri og áskoranir og má segja að fyrsti ársfjórðungur hafi borið þess merki. Hátt vaxtaumhverfi og þrálát verðbólga hafa sett sitt mark á umræðuna og vísbendingar eru um samdrátt í einkaneyslu. Þá heldur sókn viðskiptavina í verðtryggð húsnæðislán áfram. Núverandi umhverfi er krefjandi fyrir fyrirtæki landsins en þrátt fyrir það er ekki að merkja mikla aukningu í vanskilum fyrirtækja á undanförnum mánuðum og eignagæði eru enn góð. Í lok apríl bárust loks fréttir af hjöðnun verðbólgu sem hefur ekki mælst jafn lág í rúm tvö ár. Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi 2024 nam 5,4 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár 9,8% á ársgrundvelli sem er aðeins undir markmiðum bankans um að hlutfallið sé hærra en 10%. Kostnaðarhlutfall bankans á fjórðungnum var 44,9%, en markmið bankans er að hlutfallið sé lægra en 45%.

Skipulagi við lóð bankans við Kirkjusand, sem áður hýsti höfuðstöðvar hans, er lokið og styttist því í að tekin verði skref í átt að frekari þéttingu byggðar á því eftirsóknarverða svæði. Bankinn hefur mikinn áhuga á að taka þátt í mikilvægum verkefnum líkt og borgarendurnýjun sem samfélagið nýtur góðs af.

Í byrjun apríl hækkaði alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) lánshæfismat bankans í BBB+ úr BBB með vísan til dvínandi efnahagslegs ójafnvægis hér á landi. Ánægjulegt er að sjá að alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin kunni að meta stöðugan og stöndugan rekstur íslenskra banka. Í mars réðist bankinn í vel heppnaða útgáfa bankans á 300 milljón evra almennu skuldabréfi sem naut fjórfaldrar umframeftirspurnar og var seld til fjárfesta víðsvegar í Evrópu. Sú útgáfa fylgdi í kjölfar útgáfu bankans á grænum almennum skuldabréfum í norskum og sænskum krónum í janúar þar sem tilboð jafngiltu rúmlega þrefaldri umframeftirspurn. Framangreindu til viðbótar höfum við séð kjör á erlendum útgáfum bankans batna mjög á síðustu mánuðum.

Íslandsbanki kynnti nýlega áherslur bankans er snúa að fjárhagslegri heilsu. Í kynslóðamælingum sjáum við að allir aldurshópar hafa vaxandi áhyggjur af fjárhagslegri heilsu. Bankinn hefur um langt skeið verið leiðandi í fræðslu um fjármál og mun nú einblína enn frekar á fjárhagslega heilsu í gegnum þjónustu og vöruþróun. Bankinn hefur það að markmiði að einfalda bankaþjónustu og valdefla viðskiptavini sína í fjármálum. Nýjar stafrænar vörur eru hluti af þeirri vegferð og sem dæmi geta viðskiptavinir nú greitt inn á lánin sín í appi og nýtt sér nýja reiknivél á vef bankans til að sjá áhrifin af umframgreiðslum.

Bankinn mun einnig einblína á aðrar hliðar heilsu – bæði líkamlega og andlega. Ný maraþonskilaboð voru frumsýnd í lok aprílmánaðar en Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er stærsta góðgerðarsöfnun ársins og fagnar í ár 40 ára afmæli. Í fyrra var metsöfnun þegar 200 milljónir söfnuðust til góðgerðafélaga og hefur í heildina safnast 1,5 milljarður frá upphafi. Við erum afar stolt af tengingu bankans við þennan viðburð og við munum kynna maraþonið af miklum krafti og höfum fengið til liðs við okkur Fríðu Bjarnadóttur, fyrstu konuna sem hljóp maraþon á Íslandi. Andlega heilsan endurspeglast í mannauðsstefnu bankans þar sem við leggjum áherslu á að bjóða besta vinnustaðinn til vaxtar. Við leggjum mikla áherslu á fjölskylduvænan og nútímalegan vinnustað þar sem starfsánægja mælist há.

Jón Guðni Ómarsson
Bankastjóri Íslandsbanka

Fjárfestaefni
Allt fjárfestaefni mun verða birt á vefsvæði fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er á ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.