Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2022 (2F22) – góður rekstur skilar góðri niðurstöðu og arðsemi eigin fjár umfram fjárhagsleg markmið bankans
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 5,9 mö. kr. á öðrum ársfjórðungi (2F21: 5,4 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 11,7% á ársgrundvelli (2F21: 11,6%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána.
- Hreinar vaxtatekjur jukust um 21,8% á milli ára og námu 10,3 mö. kr. á 2F22 samanborið við 8,4 ma. kr. á 2F21. Hækkunin á milli ára skýrist af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur nam 2,9% á 2F22 samanborið við 2,4% á 2F21.
- Hreinar þóknanatekjur jukust um 18,1% á milli ára og námu samtals 3,4 mö. kr. á 2F22 samanborið við 2,9 ma. kr. á 2F21. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, fjárfestingarbanka, verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun og vegna útlána og ábyrgða leiddu hækkunina.
- Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 2F22 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 98% af rekstrartekjum samanborið við 93% á 2F21. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 20,9% á milli 2F21 og 2F22.
- Hreinar fjármunatekjur námu 208 m.kr. á 2F22 samanborið við 619 m.kr. á 2F21.
- Stjórnunarkostnaður nam 6,0 mö. kr. á 2F22 samanborið við 6,5 ma. kr. á 2F21, lækkun um 7,6%. Að frádregnum 588 m.kr. einskiptiskostnaði á 2F21 hækkaði stjórnunarkostnaður um 1,6% en lækkaði um 5,9% að raunvirði.
- Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 42,7% á 2F22 og er undir markmiði bankans, úr 49,9% á 2F21, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs.
- Virðisrýrnun var jákvæð um 575 m.kr. á 2F22 og skýrist helst af niðurstöðu dómsmáls varðandi lán sem áður var að fullu afskrifað og batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á 2F21 var virðisrýrnun jákvæð um 1.140 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,20% á ársgrundvelli á 2F22 samanborið við -0,42% á 2F21.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 45,8 ma. kr. á fjórðungnum, eða um 4,1% og voru 1.154 ma. kr. í lok júní 2022. Aukninguna má rekja til allra viðskiptaeininga, en þó mest til aukningar húsnæðislána.
- Innlán frá viðskiptavinum drógust saman um 4,6 ma. kr. á öðrum ársfjórðungi 2022 eða um 0,6% og voru 757 ma. kr. í lok júní.
- Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
- Eigið fé bankans nam 203,7 ma. kr. í lok júní 2022. Samsvarandi eiginfjárgrunnur, sem inniheldur viðbótareiginfjárþátt 1 og eiginfjárþátt 2, lækkaði úr 228 ma. kr. í 213 ma. kr. vegna samþykktar aðalfundar á 15 ma. kr. endurkaupum á eigin bréfum. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,5% samanborið við 25,3% í árslok 2021. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 18,2% samanborið við 21,3% í árslok 2021. Það er vel yfir markmiði bankans sem er ~16,5%. Lækkun eiginfjárhlutfalla á fjórðungnum skýrist af lækkun á eiginfjárgrunni og hækkun á áhættugrunni (REA).
- Bankinn metur að umfram eigið fé eiginfjárhlutfalls almenns þáttar 1 sé nú um 30-35 ma. kr. Lækkun á umfram eigin fé er vegna mikillar aukningar í útlánum á 2F22. Stefnt er að bestu samsetningu eigin fjár fyrir árslok 2023.
- Vogunarhlutfallið var 12,5% í lok júní, samanborið við 13,6% í árslok 2021, sem gefur til kynna lága skuldsetningu í alþjóðlegum samanburði.
Helstu atriði í afkomu á fyrri árshelmingi 2022 (1H22) – Arðsemi yfir markmiði leidd áfram af tekjuvexti
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 11,1 ma. kr. á fyrri helmingi ársins (1H21: 9,0 ma.kr.). Arðsemi eigin fjár var 10,9% á ársgrundvelli samanborið við 9,7% á 1H21.
- Hreinar vaxtatekjur námu samtals 19,5 ma. kr. á 1H22 sem er hækkun um 17,2% milli ára og skýrist af hærra vaxtaumhverfi milli tímabila og aukinna inn- og útlána.
- Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 12,6% milli ára og námu samtals 6,5 ma. kr á 1H22 samanborið við 5,8 ma. kr á 1H21. Þóknanir vegna greiðslumiðlunar, fjárfestingabanka og verðbréfaviðskipta eru megin þættir hækkunarinnar.
- Hreinar fjármunatekjur námu 113 m.kr. á 1H21 samanborið við 912 m.kr. á 1H21.
- Stjórnunarkostnaður nam 11,8 mö. kr. á 1H22 samanborið við 12,3 ma. kr. á 1H21, lækkun um 4,2%. Án einskiptiskostnaðar í 1H21, hækkar stjórnunarkostnaður um 1,6% á milli ára en lækkar þó að raunvirði um 5,9%.
- Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega milli ára, frá 50,6% á 1H21 í 45,0% á 1H22.
- Hrein virðisrýrnun á 1H22 var jákvæð um 1.058 m.kr. (1H21: 622 m.kr.). Jákvæð virðisrýrnun er vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu.
Uppfærðar leiðbeinandi tölur fyrir árið 2022
- Í ljósi góðrar afkomu og væntinga fyrir síðari hluta ársins þá hefur nú leiðbeinandi tala fyrir arðsemi verið endurskoðuð upp á við og er nú yfir 10% frá fyrra 8-10%. Jafnframt verður leiðbeinandi bil fyrir kostnaðarhlutfall nú 44-47% , en var áður 45-50%.