Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023 (1F23) – sterk rekstrarniðurstaða í krefjandi markaðsumhverfi
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 6,2 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi (1F22: 5,2 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 11,4% á ársgrundvelli (1F22: 10,2%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun sem vegur upp á móti hækkun kostnaðar.
- Hreinar vaxtatekjur jukust um 34,9% á milli ára og námu 12,4 ma. kr. á 1F23 samanborið við 9,2 ma. kr. á 1F22. Hækkunin á milli ára skýrist að mestu af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur á heildareignir nam 3,2% á 1F23 samanborið við 2,6% á 1F22.
- Hreinar þóknanatekjur jukust um 13,2% á milli ára og námu samtals 3,5 ma. kr. á 1F23 samanborið við 3,1 ma. kr. á 1F22. Tekjur af kortum og greiðslumiðlun og þóknanatekjur hjá Allianz Ísland hf., dótturfélagi bankans, eru áfram þeir liðir sem leiða hækkunina.
- Kjarnastarfsemi gegnir eftir sem áður lykilhlutverki í tekjustreymi bankans og á 1F23 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 95% af rekstrartekjum (97% á 1F22). Þessir tveir tekjuliðir jukust um 29,5% á milli 1F23 og 1F22.
- Hreinar fjármunatekjur námu 538 m.kr. á 1F23, samanborið við fjármunakostnað að fjárhæð 95 m.kr. á 1F22 sem skýrist að mestu leyti af hreyfingum á vaxtaferlum í íslenskum krónum og erlendum myntum.
- Stjórnunarkostnaður nam 7,0 ma. kr. á 1F23 samanborið við 5,8 ma. kr. á 1F22, sem er talsverð hækkun milli ára, eða sem nemur 20,7%. Hækkunin skýrist að mestu af samningsbundnum launahækkunum, stefnumótandi verkefnum, auknum umsvifum Allianz Ísland hf. og mikilli verðbólgu. Hluti aukins kostnaðar á fjórðungnum ætti að jafnast út yfir árið, eða jafnast á móti auknum tekjum.
- Kostnaðarhlutfall bankans var 42,1% á 1F23 og er innan markmiða bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og lækkar úr 47,6% á 1F22. Sterk tekjumyndun vegur að hluta til á móti auknum kostnaði.
- Gjaldfærð virðisrýrnun nam 675 m.kr. á 1F23 og skýrist að mestu af stækkun lánasafnsins. Á 1F22 var virðisrýrnun jákvæð um 483 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var +0,22 prósentustig á ársgrundvelli á 1F23 samanborið við -0,17 prósentustig á 1F22.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 32,4 ma. kr á fjórðungnum, eða um 2,7% og voru 1.219 ma. kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2023.
- Aukning var á innlánum frá viðskiptavinum um 10,2 ma. kr. á fjórðungnum eða um 1,3% og voru 800,1 ma. kr. í lok fyrsta ársfjórðungs, aukningin kom aðallega frá viðskiptavinum Einstaklingssviðs.
- Eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er áfram sterk og voru öll hlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
- Eigið fé bankans nam 210,4 ma. kr. í lok fjórðungsins samanborið við 218,9 ma. kr. í lok árs 2022. Bankinn greiddi alls um 12,3 ma. kr. í arð til hluthafa á fyrsta ársfjórðungi 2023. Eiginfjárhlutfall bankans var 23,2% í lok 1F23, samanborið við 22,2% í árslok 2022. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 19,9%, samanborið við 18,8% í árslok 2022. Uppfært viðmið bankans um eiginfjárhlutfall almenns þáttar gerir ráð fyrir 100-300 prósentustigum í eiginfjárauka umfram kröfur eftirlitsaðila.
- Bankinn fyrirhugar að halda áfram með fimm milljarða endurkaup á eigin bréfum á komandi mánuðum, og ljúka bestun efnahagsreiknings fyrir lok árs 2024, með fyrirvara um aðstæður á mörkuðum.