Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 2021 (4F21) –arðsemi umfram arðsemismarkmið og spár greiningaraðila
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 7,1 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi (4F20: 3,5 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 14,2% á ársgrundvelli (4F20: 7,6%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri, jákvæð virðisbreyting útlána og auknar tekjur af aflagðri starfsemi.
- Hreinar vaxtatekjur jukust um 4,7% á milli ára og námu 8,6 ma. kr. á 4F21 samanborið við 8,3 ma. kr. á 4F20. Hækkunin á milli ára skýrist af stækkun lánasafns bankans á árinu. Vaxtamunur nam 2,4% á 4F21 samanborið við 2,5% á 4F20.
- Hreinar þóknanatekjur jukust um 27,5% á milli ára og námu samtals 3,7 ma. kr. á 4F21 samanborið við 2,9 ma. kr. á 4F20. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu og fjárfestingarbanka sem og verðbréfaviðskiptum leiddu hækkunina.
- Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 4F21 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 94% af rekstrartekjum samanborið við 92% á 4F20. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 10,5% á milli 4F20 og 4F21.
- Hreinar fjármunatekjur námu 646 m.kr. á 4F21 samanborið við 783 m.kr. á 4F20. Jákvæðar virðisbreytingar verðbréfa mynda stóran hluta af hreinum fjármunatekjum á 4F21.
- Stjórnunarkostnaður nam 5,8 ma. kr. á 4F21 sem er lækkun um 5,0% frá 4F20 og má rekja til áframhaldandi hagræðingar í rekstri.
- Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 45,3% á 4F21, sem er í takt við 45,0% markmið bankans, úr 51,7% á 4F20, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs.
- Virðisrýrnun var jákvæð á 4F21 um 0,6 ma. kr. og skýrist helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á 4F20 var virðisrýrnun neikvæð um 1,8 ma. kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,23% á ársgrundvelli á 4F21 samanborið við 0,73% á 4F20.
- Hagnaður af aflagðri starfsemi til sölu var 1,1 ma. kr. á 4F21 samanborið við 173 m.kr. á 4F20. Hækkun milli ára skýrist af hagnaði dótturfélags af seldum eignarhlut sem og af sölu lands, sem hafði verið flokkað sem aflögð starfsemi.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9 ma. kr. á fjórðungnum, eða um 0,5% og voru 1.086 ma. kr. í árslok 2021. Aukninguna má rekja til húsnæðislána.
- Innlán frá viðskiptavinum drógust saman um 10,4 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi 2021 eða um 1,4% eftir mikinn vöxt fyrr á árinu.
- Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
- Eigið fé bankans nam 203,7 ma. kr. í lok árs 2021 og eiginfjárhlutfall bankans var 25,3%, samanborið við 23,0% í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 21,3% í árslok 2021 samanborið við 20,1% í árslok 2020. Það er vel yfir uppfærðu markmiði bankans sem er ~16,5%.
Helstu atriði í afkomu ársins 2021 – viðsnúningur frá fyrra ári vegna jákvæðrar virðisrýrnunar
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á árinu 2021 nam 23,7 ma. kr. (2020: 6,8 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 12,3% á ársgrundvelli samanborið við 3,7% fyrir árið 2020.
- Hreinar vaxtatekjur námu samtals 34,0 ma. kr. á árinu 2021 sem er hækkun um 2,0% á milli ára og skýrist af stærra lánasafni. Vaxtamunur fyrir árið 2021 var 2,4% samanborið við 2,6% á árinu 2020 þar sem voru að meðaltali lægri á árinu 2021.
- Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 22,1% á milli ára og námu samtals 12,9 ma. kr. á árinu 2021. Vöxturinn dreifist nokkuð jafnt eftir liðum sem sýnir sterkan tekjugrunn.
- Hreinar fjármunatekjur námu 2,5 ma. kr. á árinu 2021 samanborið við tap árið 2020 að fjárhæð 1,4 ma. kr. þar sem markaðsaðstæður voru betri á árinu 2021.
- Stjórnunarkostnaður hækkaði um 2,0% á milli ára en hækkunina má aðallega rekja til einskiptiskostnaðar í tengslum við skráningu bankans eða um 521 m.kr. Launakostnaður jókst um 3,7% á árinu sem má rekja til kjarasamningshækkana, einskiptiskostnaðar vegna skráningar bankans og hærri kostnaðar vegna starfsloka.
- Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára, úr 54,3% árið 2020 í 46,2% árið 2021.
- Hrein virðisrýrnun á árinu 2021 var jákvæð um 3,0 ma. kr. samanborið við neikvæða virðisrýrnun að fjárhæð 8,8 ma.kr. á árinu 2020. Jákvæð virðisrýrnun er aðallega tilkomin vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu en á árinu 2020 var neikvæð virðisrýrnun tengd upphafi heimsfaraldurs COVID-19. Áhættukostnaður útlána var -0,28% á ársgrundvelli fyrir árið 2021 samanborið við 0,91% árið 2020.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 7,9% á árinu 2021, sem má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðislánamarkaði.
- Í lok árs 2021 hafði hlutfall lána með laskað lánshæfi (vergt bókfært virði) lækkað í 2,0% úr 2,9% í lok árs 2020, aðallega vegna uppgreiðslu lána á stigi 3.
- Innlán frá viðskiptavinum jukust um 64,6 ma. kr. á árinu 2021, eða 9,5%, sem má að mestu rekja til aukningar innlána hjá Viðskiptabanka en innlán jukust einnig hjá Einstaklingum.
- Vogunarhlutfall var 13,6% í lok árs 2021, óbreytt frá lok árs 2020.
- Tilskipun (ESB) 2014/59 um tapsþols- og endurfjármögnunargetu fjármálafyrirtækja (BRRD I) var m.a. innleidd á Íslandi með lögum nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (hér eftir lögin). Þann 8. desember 2021 birti Seðlabanki Íslands stefnu um ákvörðun lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. MREL), sbr. 17. gr. laganna. Stefnan tilgreinir ekki endanlega MREL-kröfu niður á einstök fjármálafyrirtæki en setur fram aðferðarfræði skilavaldsins við útreikning kröfunnar og væntanlega tímalínu innleiðingar. Samkvæmt MREL-stefnunni stefnir skilavaldið að birtingu MREL-krafna fyrir íslensk fjármálafyrirtæki í byrjun árs 2022 og miðað við stöðuna í dag er útlit fyrir að bankinn muni uppfylla MREL vel umfram kröfur. Undirskipan (e. subordination requirement) samkvæmt tilskipun (ESB) 2019/879 um tapþols- og endurfjármögnunargetu fjármálafyrirtækja (BRRD II) hefur ekki verið skilgreind en tekið er fram að undirskipan muni verða skilgreind við innleiðingu BRRD II í íslensk lög. Líkt og í öðrum löndum Evrópu er líklegt að lokafrestur til að uppfylla endanlega MREL kröfu verði frá og með janúar 2024.
- Samhliða birtingu ársreiknings fyrir árið 2021 birtir bankinn árs- og sjálfbærniskýrslu, áhættuskýrslu (e. Pillar 3 Report) ásamt áhrifaskýrslu fyrir sjálfbæran fjármálaramma bankans.
Uppfærð fjárhagsmarkmið
- Stjórn Íslandsbanka samþykkti uppfærð fjárhagsmarkmið á 4F21 í ljósi góðrar afkomu og hærra vaxtaumhverfis.