Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma á þriðja ársfjórðungi

Hagnaður af rekstri bankans nam 6,0 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og arðsemi eigin fjár var 11,0%


  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 6,0 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi (3F22: 7,5 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 11,0% á ársgrundvelli (3F22: 14,4%). Þetta er í samræmi við uppfærða afkomuspá bankans fyrir árið 2023, sem gerir ráð fyrir að arðsemin verði á bilinu 10,7-11,7% og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að arðsemi eigin fjár sé yfir 10%.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 11,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og jukust þær um 4.7% samanborið við 11,3 milljarða króna á 3F22.  
  • Vaxtamunur var 2,9% á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 3,0% á sama ársfjórðungi ársins 2022.
  • Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 3,3% samanborið við þriðja ársfjórðungi 2022 og námu samtals 3,4 milljörðum króna á fjórðungnum. 
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 193 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 471 milljón króna á 3F22. 
  • Stjórnunarkostnaður nam 6,0 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 5,3 milljarða króna á 3F22, sem er 14,5% hækkun milli ára. 
  • Kostnaðarhlutfall bankans var 39% á fjórðungnum, sem er lægra en afkomuspá bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og vel undir fjárhagslegu markmiði um að kostnaðarhlutfall sé lægra en 45%. Kostnaðarhlutfallið var 36,3% á 3F22.
  • Virðisrýrnun var neikvæð og nam 583 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi, og má helst rekja til þess að færsla var gerð vegna nokkurra lánamála, en virðisrýrnun var jákvæð um 1.165 milljónir á þriðja ársfjórðungi 2022. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var 0,19 prósentustig á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi samanborið við -0,40 prósentustig á öðrum ársfjórðungi ársins.
  • Útlán til viðskiptavina minnkuðu um 27,3 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 2,2% frá fyrri fjórðungi og voru 1.210 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs 2023.
  • Aukning á innlánum frá viðskiptavinum á þriðja ársfjórðungi nam 47,5 milljörðum króna eða um 5,8%. Innlán frá viðskiptavinum voru 864 milljarðar króna í lok fjórðungsins.
  • Eigið fé bankans nam 219,7 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins, samanborið við 218,9 milljarða króna í lok árs 2022. 
  • Eiginfjárhlutfall bankans var 24,3% í lok þriðja ársfjórðungs, samanborið við 22,2% í árslok 2022. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 20,6%, samanborið við 18,8% í árslok 2022, sem er 580 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila. 

Helstu atriðin í afkomu á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 (9M23)

  • Hagnaður af rekstri bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 nam 18,4 milljörðum króna (9M22: 18,6 milljarðar króna), og arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli, samanborið við 12,1% á fyrstu níu mánuðum árs 2022.
  • Hreinar vaxtatekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 36,9 milljörðum króna, sem er aukning um 19,8% samanborið við fyrstu níu mánuði 2022.
  • Hreinar þóknanatekjur jukust um 4,5% á milli ára, og námu 10,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 10 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. 
  • Hrein fjármagnsgjöld voru 214 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 358 milljónir króna fyrir sama tímabil í fyrra. 
  • Stjórnunarkostnaður var 19,8 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins, ef frá er talin 860 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 17,1 milljarð króna stjórnunarkostnað fyrstu níu mánuði ársins 2022.
  • Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 41,9% á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 niður í 41,3% fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023.
  • Virðisrýrnun á fjáreignum var neikvæð um 13 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en var jákvæð um 2.223 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2022.

 

Rekstur bankans var með ágætum á þriðja ársfjórðungi og var arðsemi eigin fjár 11,0% á ársgrundvelli á fjórðungnum, sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Mikil aukning var í innlánum frá viðskiptavinum en útlán lækkuðu á fjórðungnum. Fjárhagsstaða bankans er afar sterk og hlutfall lána í vanskilum hefur haldist stöðugt. Ákvörðun Moody's um að veita bankanum lánshæfis­matseinkunnina A3 með stöðugum horfum sýnir sterka eiginfjárstöðu Íslandsbanka, góða og stöðuga arðsemi og er mikil viðurkenning á þrotlausri vinnu og staðfestu starfsfólks.

Eitt af stærstu verkefnum okkar þessa dagana er án efa að stíga ölduna með viðskiptavinum okkar á krefjandi tímum þar sem hátt vaxtastig og verðbólga gera það að verkum að róðurinn þyngist hjá mörgum og viðskiptavinir bankans leita nú í auknum mæli eftir verðtryggðri lánsfjármögnun. Aðrar leiðir geta þó einnig staðið viðskiptavinum til boða þegar kemur að því að takmarka áhrif hárra vaxta. Stór hluti húsnæðislána sem bankinn hefur veitt undanfarin ár hefur til að mynda að geyma ákvæði um vaxtagreiðsluþak, sem getur lækkað mánaðarlega greiðslubyrði viðskiptavina. 

Samfara miklum og hröðum tækniframförum eykst tíðni netsvindla. Bankinn hefur aukið mjög við þjónustu við viðskiptavini sem telja sig hafa lent í slíku, og býður meðal annars upp á neyðarþjónustu allan sólarhringinn og innleiddi nýlega öryggislausn sem skráir viðskiptavin út úr öllum tækjum með einum smelli. 

Við tökum við umsóknum í Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka til 1. nóvember næstkomandi og hlökkum til að úthluta úr þeim sjóði í lok árs. Íslandsbanki vill vera hreyfiafl til góðra verka og stuðningur við frumkvöðlasamfélagið er mikilvægur þáttur í verkefnum okkar. 

Jón Guðni Ómarsson
Bankastjóri Íslandsbanka

Fyrirvari

Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.

FJÁRFESTATENGSL

Vefstreymi föstudaginn 27. október 2023

Íslandsbanki mun halda afkomufund/vefstreymi föstudaginn 27. október kl. 8.30 fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri og Bjarney Anna Bjarnadóttir, fjárfestatengill munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á ársfjórðungnum. Fundurinn fer fram á ensku.

Fundurinn verður aðgengilegur í gegnum hlekk á vefsvæði fjárfestatengsla á vef bankans. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á sama stað að honum loknum. Þátttaka, og möguleikinn á að bera fram skriflegar spurningar, fer fram á þessari síðu. Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar munnlega með því að skrá sig á þessari síðu. Að skráningu lokinni færðu afhent símanúmer og auðkenni fyrir fundinn. Allar upplýsingar um fundinn má finna hér.

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Íslandsbanka í gegnum netfangið ir@islandsbanki.is

Fjárhagsdagatal

Stefnt er á að birta árshlutauppgjör 4F23/ársuppgjör 2023 8. febrúar 2024. Frekari upplýsingar um fjárhagsdagatal Íslandsbanka fyrir árið 2024 eru aðgengilegar á vef bankans.

Fjárfestaefni

Allt fjárfestaefni mun verða birt á vefsvæði fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar veita:


Bjarney Anna Bjarna­dótt­ir

Fjárfestatengsl


Senda tölvupóst
698 0259

Edda Hermannsdóttir

Forstöðumaður


Senda tölvupóst
844 4005