Greinin birtist fyrst á Vísi
Verðbólgan hefur ekki alveg verið til friðs að undanförnu. Tólf mánaða taktur hennar hefur hægt og rólega þokast upp síðastliðna mánuði og er nú í gildum sem við höfum ekki séð í sjö ár.
Það er ekkert nýtt að verðbólga aukist annað slagið og hjaðni þess á milli en hvað skýrir þessar hreyfingar og hvaða áhrif koma þær til með að hafa á heimilin í landinu?
Helstu hreyfingar
Leyfum okkur að skipta þróun verðbólgunnar frá hruni í fjögur aðskilin tímabil:
- Að langstærstum hluta má rekja afar háar verðbólgutölur í kjölfar hrunsins til veikingar krónunnar. Verðbólgan hjaðnaði þó nokkuð ört fram til ársins 2014.
- Árin 2014 og fram á mitt ár 2018 var verðbólgan um eða undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Var þetta tímabil óvenju mikils verðstöðugleika, sem áður hafði tæplega sést hér á landi.
- Í kring um fall WOW air og bakslag í helstu útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustu, veiktist krónan og jókst verðbólgan tímabundið en var aftur komin niður fyrir markmið um áramótin 2020.
- Kórónukreppunni fylgdi nokkur veiking krónunnar að nýju og sú aukning verðbólgu sem stendur nú væntanlega sem hæst.
Ætla má að sveiflur í gengi krónunnar vegi þyngst í verðbólgunni þessi dægrin og hafa staða og horfur í ferðaþjónustunni þar væntanlega mest að segja. Nái greinin vopnum sínum þegar lengra líður á þetta ár eins og vonast er til fáum við hingað til lands ferðamenn með vasa fulla af gjaldeyri sem styðja munu duglega við litla gjaldmiðilinn okkar og jafnvel styrkja hann nokkuð. Sterkari króna mun að öðru óbreyttu draga úr verðbólgu og er til mikils að vinna að svo verði.
Að þakka krónunni eða kenna að fullu um sveiflur í verðbólgu er þó full mikil einföldun. Launahækkanir um áramót virðast til að mynda hafa hækkað vöruverð nokkuð, meðal annars í matvöruverslunum. Íbúðaverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs og hefur verið á nokkru skriði að undanförnu. Þá hefur olíu- og bensínverð rokið upp, með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.
Miklar sveiflur í verðlagi og verðbólga umfram það sem eðlilegt þykir hefur hvort tveggja neikvæð áhrif á fjárhag heimilanna. Viðvarandi verðbólga étur upp eigið fé í íbúðarhúsnæði þeirra sem eru með verðtryggð lán, sem enn eru um 2/3 hluti íbúðalána hér á landi. Takist okkur að draga úr henni verður það til þess að við fáum meira fyrir launin okkar og afborganir verðtryggðra lána vega þyngra en ella.
Áhrif stöðugs verðlags á heimilin
Við vonumst til að dragi úr verðbólgu þegar líður á árið og spáum við í Greiningu Íslandsbanka að hún verði í námunda við 2,5% markmið Seðlabankans um áramót. Byggir sú spá á að um 700.000 ferðamenn sæki landið heim á árinu.