Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Af hverju þarf bankinn minn að þekkja mig?

Rétt eins og við skiptum um lykilorð með reglulegu millibili og þurfum að skrá okkur ítrekað inn á vefi með rafrænum skilríkjum erum við beðin um að sanna á okkur deili annað slagið.


Hvernig stendur á því að við virðumst sífellt vera beðin um að sanna á okkur deili? Það er ekki furða að mörg spyrji sig að þessu, enda virðast beiðnir um útfyllingu áreiðanleikakannana hafa færst í aukana að undanförnu. 

Einfalda svarið er að fjármálastofnunum ber skylda til að getað sannað deili á öllum viðskiptavinum, eðli allra viðskipta og raunverulegum eigendum fjármuna. Með öðrum orðum mega bankar, sem tilkynningarskyldir aðilar, ekki eiga viðskipti við fólk eða lögaðila án þess að þeim fylgi upplýsingar á borð við kennitölu. Enn fremur þurfa upplýsingarnar að vera nýlegar og því getum við lent í því að vera beðin um að ganga í gegnum þessa eilitlu handavinnu hjá hinum og þessum aðilum og jafnvel oft hjá þeim sömu. 

Svona er veruleikinn í dag og sömu reglur gilda um alla Evrópu. Þeim er ætlað að koma í veg fyrir peningaþvætti og leiðir til fjármögnunar hryðjuverka. Öll þurfum við að svara ákveðnum spurningum um viðskiptasambandið (slíkt er kallað áreiðanleikakönnun) og eru spurningarnar og gildistími könnunarinnar misjöfn eftir því hvort um einstaklinga, fyrirtæki eða félagasamtök er að ræða. Tilkynningarskyldir eru fleiri aðilar en bankar, til dæmis fasteignasölur, endurskoðendur og lögmannsstofur.  

Rétt eins og við skiptum um lykilorð með reglulegu millibili og þurfum að skrá okkur ítrekað inn á vefi með rafrænum skilríkjum erum við öll beðin um að sanna á okkur deili annað slagið, alveg sama hversu fráleitt það hljómar að við gætum með nokkrum hætti tengst fjármögnun hryðjuverka eða peningaþvætti. 

Sem betur fer er þetta þó ekki mikið mál og yfirleitt fljótlegt og aðgengilegt á vefsíðum, í ráðgjafaveri eða útibúum fjármálastofnana. Að sanna á sér deili er ef til vill ekki það skemmtilegasta sem við gerum en markmiðið er að auka öryggi, rekjanleika og gegnsæi í bankaviðskiptum og draga úr líkum á svikum. Því er best að bíta á jaxlinn og klára þetta bara í hvelli.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um fjármál og efnahagsmál

Höfundur


Lilja Pálsdóttir

Útibússtjóri


Hafa samband