Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aðalfundur Íslandsbanka

Aðalfundur Íslandsbanka fór fram í dag. Friðrik Sophusson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir uppgjör bankans og helstu þætti í starfsemi hans á árinu 2014. 


Opinber gjöld og aukin samkeppni

Í máli Friðriks kom fram að búast megi við að hagnaður bankans dragist nokkuð saman á næstu árum um leið og vægi óreglulegra liða í rekstri hans minnkar. Þá fór Friðrik yfir rekstrarumhverfi íslenskra banka og benti á að Íslandsbanki muni greiða um 10 milljarða króna í tímabundinn bankaskatt á því fjögurra ára tímabili sem skatturinn á að vera við lýði. Frá stofnun hafi bankinn greitt um 50 milljarða króna í opinber gjöld. Gæta verði að samkeppnisumhverfi íslenskra banka sem mæti sífellt meiri samkeppni frá norrænum bönkum um lán til stærstu fyrirtækja landsins. Séríslensk skattheimta nái ekki til erlendra aðila og því mikilvægt að hún sé tímabundin eins og kynnt hefur verið. Þá setji léleg lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins og fyrirtækja hér á landi enn frekari skorður í samkeppni við önnur lönd. Þá benti Friðrik á að full ástæða sé til að skoða hvort frekari tækifæri séu til sameininga á fjármálamarkaði til þess að auka hagræðingu og stærðarhagkvæmni, viðskiptavinum til bóta. 

Endurskipulagningu lokið

Friðrik talaði um útgáfu árlegrar áhættuskýrslu bankans. Í skýrslunni er greining á þróun vanskila hjá bankanum sem sýnir hraðar umbætur undanfarin ár. Íslandsbanki kemur vel út í samanburði við evrópska banka en samkvæmt skilgreiningu Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) á vanskilum þá var staða Íslandsbanka orðin sambærileg besta/lægsta þriðjungnum í evrópsku bankakerfi. Í máli Friðriks kom fram að á þessum grunni teldi bankinn sér óhætt að lýsa yfir að endurskipulagningu lánasafns bankans, sem hófst árið 2009, sé nú lokið, og þau mál sem enn standi eftir verði unnin ásamt öðrum úrvinnslumálum sem ávallt geti komið upp í bankastarfsemi.

Mest útlánavöxtur frá stofnun

Birna Einarsdóttir fór yfir rekstrarniðurstöður ársins. Í máli hennar kom fram að reksturinn hafi gengið vel á öllum sviðum og að vöxtur útlánasafnsins hafi verið sá mesti frá stofnun bankans. Ný útlán námu 165 milljörðum króna, sem er 65% aukning milli ára, og munaði þar mestu um aukin lán til fyrirtækja og vaxandi eftirspurn eftir eignafjármögnun og húsnæðislánum. Þá hafi bankinn gripið til fjölmargra aðgerða til að hagræða í rekstri sem miða að því að auka skilvirkni starfseminnar og lækka kostnað. Meðal þeirra er endurnýjun á samningum við birgja, einföldun verkferla og fækkun starfsmanna sem samsvarar 240 stöðugildum frá nóvember 2011. Birna talaði um að bankanum hafi gengið vel að auka fjölbreytni í fjármögnun sinni og sé nú stærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa á Íslandi. Þá hafi bankinn verið fyrsti íslenski bankinn til að gefa út skuldabréf í evrum frá árinu 2008 og aukið útgáfu sína enn frekar á skuldabréfum í sænskum krónum. Þessi góði árangur bankans hafi vakið athygli erlendis, þar sem bæði Euromoney og The Banker útnefndu Íslandsbanka besta bankann á Íslandi. Þar að auki var enginn banki með hærri einkunn en Íslandsbanki í Íslensku ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina.

Ákvarðanir aðalfundar – breytingar á stjórn

John Mack, sem verið hefur varaformaður stjórnarinnar sl. fimm ár, lætur af störfum að eigin ósk og eru honum þökkuð góð störf í þágu bankans. Í hans stað kemur Eva Cederbalk, hagfræðingur. Hún á um 40 ára feril að baki í fjármálageiranum. Hún starfaði um 23 ára skeið í Skandinaviska Enskilda Banken, m.a. sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og forstöðumaður netviðskipta. Þá var hún einnig forstjóri SBAB Bank um 7 ára skeið. Síðustu ár hefur Cederbalk setið í stjórnum margvíslegra fyrirtækja, m.a. fjárfestinga- og tryggingafélaga. 

Ernst & Young verða nýir endurskoðendur bankans. Starfskjarastefna bankans helst óbreytt en tillaga um hækkun þóknunar stjórnar var samþykkt, þóknunin hefur ekki hækkað í fimm ár. Þá var samþykkt að greiða eigendum 9 milljarða króna arð, sem er tæplega 40% af hagnaði ársins.