Íslandsbanki hefur ráðið hollenska bankann ABN AMRO til að sinna hlutverki sjálfstæðs fjármálaráðgjafa í tengslum við skráningu Íslandsbanka og sölu á 25-35% hlut í bankanum. Eins og kunnugt er ákvað Fjármála- og efnahagsráðherra þann 29. janúar síðastliðinn að hefja slíkt ferli að undangenginni tillögu frá Bankasýslu ríkisins og umsögnum þingnefnda, í takti við ákvæði laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hlutverk ABN AMRO verður að veita stjórnendum Íslandsbanka ráðgjöf í tengslum við söluna en bankinn býr að dýrmætri reynslu af slíkri sölu og var skráður í kauphöllina í Hollandi árið 2015.
Til viðbótar hyggst Bankasýsla ríkisins ráða sinn eigin sjálfstæða fjármálaráðgjafa sem og söluráðgjafa, sem veita munu Bankasýslunni ráðgjöf vegna sölunnar.