Lengi hefur verið rætt um erfiða stöðu leigjenda á Íslandi enda má að segja að skipulegur leigumarkaður hafi aldrei náð almennilegri fótfestu hér á landi.
Raunar fann tæpur helmingur leigjenda nánast enga kosti við leigumarkaðinn í könnun sem framkvæmd var fyrir Íbúðalánasjóð fyrr á þessu ári. Helst var bent á þann ókost að leiga sé of há en yfirgnæfandi meirihluti telur óhagstætt að leigja eða um 92% svarenda. Það má því ætla að langflestir sem nú eru á leigumarkaðinum myndu heldur kjósa annað búsetuform. Það bendir til að að leiguhúsnæði sé í augum þessa hóps ill nauðsyn fremur en valkostur.
Námsmenn og öryrkjar meginþorri leigumarkaðsins
Um 16% fullorðinna eru nú á leigumarkaði samkvæmt könnuninni og hefur þetta hlutfall lítið breyst undanfarin ár. Ungt fólk er líklegra til að leigja en um 60% allra leigjenda eru á aldrinum 18-34 ára og eru námsmenn fjölmennasti hópur leigjenda. Næst fjölmennastir eru öryrkjar sem telja 27% leigumarkaðsins og ætla má að stór hluti þeirra sé í félagslegu leiguhúsnæði.
Leigjendur verr staddir
Einstaklingar á leigumarkaði eru líklegri til að telja sig búa við óöryggi en þeir sem búa í eigin húsnæði samkvæmt fyrrnefndri könnun Íbúðalánasjóðs og Zenter. Þannig telur helmingur leigjenda sig búa við slíkt öryggi en hlutfallið er 94% á meðal íbúðareigenda .
Algengasta ástæða þess að leigjendur töldu sig ekki búa við húsnæðisöryggi var of hátt leiguverð. Samkvæmt gögnum Eurostat búa talsvert fleiri leigjendur á Íslandi við íþyngjandi húsnæðiskostnað en húsnæðiseigendur og hefur hlutfallið aukist jafnt og þétt frá árinu 2008 en talað er um að húsnæðiskostnaður sé íþyngjandi þegar hann nemur 40% eða meira af ráðstöfunartekjum heimilisins. Samkvæmt nýjustu tölum frá 2016 bjuggu um 15% allra leigjenda þá við íþyngjandi húsnæðiskostnað en einungis tæplega 5% íbúðareigenda.
Hins vegar er hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi leigukostnað ekki hærra hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hlutfallið hér á landi mældist 17% árið 2016 en mældist hærra m.a. í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Því glíma hlutfallega fleiri leigjendur við fjárhagslega örðugleika í nágrannalöndum okkar.
Leigjendur eiga í vandræðum með að leggja fyrir
Vísitölur leiguverðs, íbúðaverðs og launa fylgdust nokkuð vel að á árunum 2011-2016. En nokkur breyting hefur þó orðið þar á. Frá árinu 2016 hefur leiguverð hækkað nokkuð meira en ráðstöfunartekjur, einkum ef litið er til yngstu aldurshópanna. Hærra hlutfall tekna fer því í leigu og erfiðara verður að leggja fyrir og kaupa íbúð. Þannig segjast 20% leigjenda safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman en einungis 7% þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Það er því mikið verk að vinna sé áhugi á að hér á landi verði leigumarkaðurinn raunverulegur og ákjósanlegur valkostur.