Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Á leið til Liverpool á Opna breska meistaramótið

Dregið hefur verið í leik Íslandsbanka og Mastercard þar sem í aðalvinning var einstök ferð fyrir tvo á Opna breska golfmótið, The Open, í Liverpool í Englandi dagana 21. til 23. júlí næstkomandi.


Upp úr pottinum kom nafn Þórhalls Kára Knútssonar, sem brást að vonum glaður við, enda mikill golfáhugamaður, þegar hann trúði því loks að ekki væri verið að gera at í honum. Um leið tekur hann fram að áhuginn sé meiri en getan því hann sé nýlega byrjaður í sportinu.

„Nei ég náttúrlega trúði þessu ekki. Fékk símtal úr GSM númeri og var viss um að einhver í golfhópnum væri að fíflast í mér,“ segir hann. Svo þegar sannleikurinn rann upp fyrir honum tók við mikil gleði yfir því að fá tækifæri til að fara á mótið og hafa með sér kærustuna, Hörpu Guðrúnu Hreinsdóttur. Lukkulegt parið má sjá hér að ofan.

Um einstakan vinning er að ræða hluti af pakkanum er VIP aðgangur að mótinu sem er hluti af Priceless herferð Mastercard og ekki til sölu neins staðar. Innifalið er flug fram og til baka fyrir tvo, akstur milli staða, gisting og uppihald í eina nótt á Hope Street Liverpool Hotel, laugardagspassi á The Open, og svo fyrrnefndur VIP aðgangur í boði Mastercard og gisting á hóteli nóttina fyrir brottför.

Allir sem nota Mastercard kort hjá Íslandsbanka og höfðu virkjað að minnsta kosti eitt tilboð í Fríðu, fríðindakerfi Íslandsbanka, fyrir 13. júní gátu tekið þátt í leiknum. Það eina sem til þurfti eftir skráningu til leiks var að virkja tilboð Fríðu í Íslandsbankaappinu og greiða fyrir með Íslandsbankakortinu. Auk aðalvinningsins voru svo einnig dregnir út tveir aukavinningar þar sem í vinning voru 75 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair.

Opna breska er elsta golfmót heims og fer í sumar fram í hundrað fimmtugasta og fyrsta sinn, en þetta er í þrettánda sinn sem mótið fer fram í Liverpool. Um er að ræða mikinn viðburð. Í fyrra þegar mótið fór fram á St. Andrews golfvellinum í Skotlandi, sóttu það 290 þúsund áhorfendur.