Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

7,3% hækkun launa á milli ára

Launavísitalan hækkaði á milli mánaða í febrúar og hefur árstaktur vísitölunnar verið nokkuð stöðugur uppá síðkastið. Kaupmáttur launa rýrnaði þó á milli mánaða , en vegna mikillar verðbólgu hefur töluvert hægst á kaupmætti að undanförnu. Hagvaxtarauki mun hækka laun enn frekar í maí næstkomandi.


Hagstofan birti í morgun gögn um vísitölur launa og kaupmáttar fyrir febrúarmánuð. Launavísitala hækkaði um 0,3% á milli mánaða og mælist árshækkun nú 7,3%. Árstaktur launavísitölunnar hefur verið með svipuðu móti, milli 7-8%, síðastliðið ár. Takturinn er enn nokkuð hraður í sögulegu samhengi en þó hefur hægst á honum frá því hann var hvað hraðastur í byrjun síðasta árs. Í febrúar og mars á því ári mældist hann til að mynda 10,6%.

Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,8% milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmátturinn hins vegar aukist um 1,0% samhliða því að verðbólga mælist með mesta móti eða um 6,2%. Hægst hefur talsvert á vexti kaupmáttar á þennan mælikvarða undanfarna mánuði enda hefur verðbólga ekki mælst meiri í nær áratug. Ætla má að hægja muni enn frekar ársvexti kaupmáttar á næstunni þar sem útlit er fyrir að verðbólga haldi áfram að aukast á næstu mánuðum.

Launabreytingar undanfarið ár má á stórum hluta rekja til launahækkana núna um áramótin þegar launavísitalan hækkaði um 3,7%. Þessar hækkanir voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta starfsfólks á vinnumarkaði. Algengustu hækkanir í janúar 2022 voru á bilinu 17-25 þúsund krónur fyrir fullt starf. Einnig hefur stytting vinnuvikunnar talsverð áhrif til hækkunar á vísitölunum þar sem þær mæla regluleg laun á hverja unna vinnustund.

Starfsmenn sveitarfélaga hafa hækkað mest í launum

Samhliða birtingu launavísitölunnar var frekara niðurbrot hennar birt fyrir síðasta ár. Sé vísitalan skoðuð eftir helstu launþegahópum hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga mest í launum á síðasta ári eða um ríflega 10%. Næst á eftir hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 9,1% og starfsfólks á almennum vinnumarkaði um 6,4%.

Í Lífskjarasamningunum var samið um krónutöluhækkanir og þar sem laun hjá opinberu starfsfólki eru yfirleitt lægri en hjá starfsfólki á almennum vinnumarkaði hafa laun þeirra hækkað hlutfallslega meira. Stytting vinnuvikunnar hefur einnig verið meiri hjá opinberu starfsfólki sem skýrir að hluta til þennan mun. Samkvæmt Hagstofunni eru áhrif vinnutímastyttingar frá mars 2019 til september 2021 metin 3,5% hjá starfsfólki sveitarfélaga, 3,1% hjá ríkisstarfsfólki og 1% hjá starfsfólki á almennum vinnumarkaði.

Frekari launahækkanir í vændum

Í Lífskjarasamningunum var auk þess samið um svokallaðan hagvaxtarauka. Hagstofan birti gögn um hagvöxt síðasta árs um síðustu mánaðarmót þar sem fram kom að árið 2021 jókst hagvöxtur á mann 2,53% milli ára.

Þessi stærð skiptir máli fyrir útreikning á hagvaxtarauka sem kemur til framkvæmda í maí næstkomandi. Miðað við þessar tölur mun sú hækkun vera 10.500 krónur fyrir taxtalaun en 7.875 krónur fyrir önnur laun. Útlit er því fyrir áframhaldandi hækkun launa á næstunni en framhaldið á vinnumarkaði veltur svo að miklu leyti á gerð kjarasamninga sem ráðist verður í á seinni hluta ársins, en Lífskjarasamningar gilda út árið 2022.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband