Afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd var ríflega 24 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Undirliðir tengdir ferðalögum og flutningum skiluðu myndarlegum afgangi á tímabilinu líkt og oft áður en lítils háttar halli var á flestum öðrum undirliðum þjónustuviðskipta við útlönd. Aftur ef það kunnugleg saga. Það flækir heildarmyndina hins vegar nokkuð að samkvæmt frétt Hagstofu er meðferð talna um viðskipti vegna notkunar á hugverkum til skoðunar hjá stofnuninni og eru slíkar færslur ekki teknar með í utanríkisviðskiptum fyrir árið 2022 fyrr en niðurstaða er fengin úr þeirri skoðun. Þetta birtist væntanlega m.a. í því að afgangur vegna slíkra viðskipta, sem oft allnokkur á lokafjórðungi hvers árs (gulu fletirnir á mynd) mælist sáralítill á lokafjórðungi síðasta árs.
54 milljarða halli á viðskiptum með vörur og þjónustu í fyrra
Þrátt fyrir myndarlegan afgang af þjónustuviðskiptum, sem að mestu má rekja til ferðaþjónustunnar, var talsverður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á síðasta ári. Þar skipti sköpum hratt vaxandi vöruskiptahalli sem náði methæðum á lokafjórðungi ársins. Horfur eru á öllu betra jafnvægi á utanríkisviðskiptum í ár en þar mun komandi ferðamannasumar skipta miklu máli.
Tekjur ferðaþjónustunnar lita þjónustujafnaðartölurnar ávallt sterkum litum og engin breyting er á því í nýju tölunum. Alls voru útflutningstekjur vegna ferðalaga og farþegaflutninga með flugi ríflega 81 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Á móti voru útgjöld tengd utanlandsferðum Íslendinga tæpir 57 ma.kr. en eins og við höfum áður fjallað um setti landinn ferðamet í október í fyrra. Afgangur af liðum tengdum ferðalögum milli landa var því 39 ma.kr. sem er svipað í krónum talið og á lokafjórðungi ársins 2019, rétt áður en faraldurinn reið yfir heimsbyggðina af fullum þunga.
Ferðaþjónustan í uppsveiflu í fyrra
Hagstofan birti einnig í morgun heildartölur fyrir vöru- og þjónustuviðskipti fram til síðustu áramóta. Á útflutningshliðinni endurspegla þær tölur að ferðaþjónustan er aftur komin í fyrra hlutverk sem ein helsta útflutningsgrein þjóðarbúsins. Á síðasta ári voru þannig tekjur af erlendum ferðamönnum alls 448 ma.kr. og þar með ríflega fjórðungur heildar útflutningstekna. Sjávarafurðir öfluðu 349 ma.kr. brúttó útflutningstekna (21% af heild) og útflutningur áls 403 ma.kr. (22%). Þar ber þó að hafa í huga að hlutdeild innfluttra aðfanga í útflutningi er býsna mismunandi eftir greinum og eins skiptir eignarhald máli þegar meta skal hreinan virðisauka í þjóðarbúinu af hverri grein fyrir sig.
Methalli á vöruskiptum vó þyngra en þjónustuafgangur
Heildarmyndin af utanríkisviðskiptum á síðasta ári er nú óðum að skýrast. Enn vantar tölur um frumþáttatekjur og rekstrarframlög milli landa á lokafjórðungi ársins 2022, en þær birtir Seðlabankinn í næstu viku.
Hins vegar liggur fyrir að halli á vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra var 54 ma.kr. Eins og sést á myndinni seig hratt á ógæfuhliðina í vöruskiptum eftir því sem lengra leið á árið og alls var vöruskiptahallinn 214 ma.kr. í fyrra. Hefur vöruskiptahallinn aldrei mælst meiri í krónum talið. Á móti var afgangur af þjónustuviðskiptum ríflega 160 ma.kr. Þótt það sé myndarlegur afgangur er hann mun minni en var að jafnaði síðustu árin fyrir faraldur. Þannig var þjónustuafgangurinn að jafnaði 264 ma.kr. á hverju áranna 2016-2019.
Utanríkisviðskiptin lituðu gengisþróun krónu
Þróun utanríkisviðskipta hefur vafalítið haft veruleg áhrif á gengisþróun krónu síðustu misserin. Gengi krónu hækkaði til að mynda linnulítið frá haustinu 2020 fram á mitt síðasta ár og á sama tíma var þokkalegt jafnvægi á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd þrátt fyrir verulega lægð í ferðaþjónustunni allt fram á síðasta ár.
Væntingar um frekari bata á utanríkisviðskiptunum síðar meir átti svo líklega sinn þátt í að krónan hélt áfram að styrkjast framan af síðasta ári. Á seinni hluta ársins 2022 gaf hún svo umtalsvert eftir að nýju á sama tíma og halli á utanríkisviðskiptum ágerðist hratt.
Það er hins vegar nokkur huggun fólgin í því að utanríkisviðskipti virðast vera að sækja í betra jafnvægi á ný ef marka má síðustu tölur. Til að mynda var lítilsháttar afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum í desember í fyrra eftir mikinn halla mánuðina á undan. Þá benda vöruskiptatölur og vísbendingar um þjónustuviðskipti á borð við fjölda ferðamanna til kynna að þokkalegt jafnvægi hafi verið þarna á milli í janúarmánuði þessa árs. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáðum við því að halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd myndi tæpri prósentu af vergri landsframleiðslu, eða sem samsvarar u.þ.b. 40 ma.kr., á yfirstandandi ári. Líklega myndast sá halli að mestu á fyrri helmingi ársins en sá seinni gæti vegið talsvert á móti, sér í lagi ef komandi ferðamannasumar verður jafn gjöfult og margt bendir til. Sú þróun ætti svo að styðja við gengi krónu þegar frá líður.