257 milljónir til góðra málefna

Nýtt met var sett í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór laugardaginn 24. ágúst síðastliðinn, fjörutíu árum eftir að fyrsta maraþonið fór fram hér á landi.


Rúmlega 257 milljónir söfnuðust og var eldra metið, sem var 199 milljónir króna, því slegið.

Afrakstur söfnunarinnar rennur óskiptur til þeirra 180 góðgerðafélaga sem eru á skrá hjá Reykjavíkurmaraþoninu.

Heildarfjárhæð áheita sem safnast hefur í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú 1,7 milljarðar króna. Þátttakendur í hlaupinu í ár voru um 14.000 og seldist upp í hálft maraþon og í 10 km hlaupið. Hlaupið er fyrir löngu orðinn lykilfjármögnunarviðburður fjölmargra góðgerðarfélaga sem um leið styður við fjölmörg af heimsmarkmiðunum. Íslandsbanki er stoltur af stuðningi sínum við hlaupið og íslensk góðgerðarfélög.