Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

2023: Ár aðlögunar í íslensku hagkerfi

Hagþróun á árinu 2023 hefur í stórum dráttum reynst svipuð og við væntum í ársbyrjun. Verðbólga hefur þó reynst þrálátari og vextir hærri þrátt fyrir sterkari krónu og skarpari viðsnúning í hagkerfinu en við spáðum í upphafi árs. Horfur eru á að árið 2024 reynist í ýmsum skilningi spegilmynd þessa árs hvað hagþróun innan ársins varðar.


Í árslok er gagnlegt fyrir okkur sem störfum við spágerð að rifja upp fyrri spár um efnahagsþróun og -horfur og bera saman við nýjustu gögn og vísbendingar. Árið í ár hefur reynst efnahagsgreinendum víða um heim býsna brögðótt og spár sem birtar voru snemma árs á stundum verið nokkuð fjarri lagi eins og til að mynda má lesa um í nýlegri grein The Economist.

Við í Greiningu Íslandsbanka höfum verið nokkuð iðin við spákolann þetta árið líkt og fyrri daginn. Þrjár þjóðhagsspár litu dagsins ljós: í febrúarbyrjun, maílok og septemberlok. Auk þess höfum við birt mánaðarlegar spár um verðbólgu ásamt stýrivaxtaspám í aðdraganda hverrar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

Þjóðhagsspá okkar í upphafi árs bar titilinn „Aðlögun í aðsigi“. Í sem stystu máli sýnist okkur við geta nokkuð vel unað við stóru myndina sem þar var dregin upp. Líkt og við bjuggumst við markaðist árið 2023 af hjaðnandi vexti innlendrar eftirspurnar á sama tíma og mikill kraftur var í þjónustuútflutningi, sér í lagi umsvifum ferðaþjónustu og tengdra greina.

Ef eitthvað er hefur þessi viðsnúningur innan árs reynst heldur skarpari en við ætluðum í ársbyrjun. Á það ekki síst við um einkaneyslu landsmanna, sem er einn veigamesti undirliður þjóðhagsreikninga miðað við ráðstöfunaraðferð. Einkaneyslan óx um 4,5% á fyrsta fjórðungi ársins en skrapp saman um 1,7% á þeim þriðja, sem er mesti samdráttur frá því snemma í faraldrinum.

Hagvöxtur var 7,0% á fyrsta fjórðungi ársins en einungis 1,1% á þeim þriðja. Þótt hagvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins hafi reynst 4,2% er alls ekki útséð um að spá okkar frá því í september um 2,2% hagvöxt í ár reynist nokkuð nærri lagi miðað við framangreinda þróun innan árs.

Hærra vaxtastig á svo stóran þátt í því að spá okkar fyrir næsta ár hljóðaði upp á minni vöxt eftir því sem á þetta ár leið. Eftir sem áður eru þó hagvaxtarhorfur þokkalegar og fátt sem bendir til þess að samdráttarskeið sé í vændum líkt og búist er við sums staðar í nágrannalöndum á næstunni.

Spenntur vinnumarkaður

Líkt og við gerðum ráð fyrir í ársbyrjun hefur vinnumarkaður reynst spenntur á árinu. Þótt eitthvað hafi dregið úr spennunni á seinni hluta ársins samhliða hægari vexti er atvinnuleysi enn lítið. Að því leyti hefur spá okkar frá byrjun árs reynst býsna nákvæm. Laun hafa hins vegar hækkað meira en við væntum og er það ein skýring þrálátari verðbólgu en við áttum von á.

Að sama skapi hafa horfur um atvinnuástand næstu ára lítið breyst eftir því sem á árið leið. Enn er útlit fyrir hóflega aukningu atvinnuleysis eftir því sem hagkerfið kólnar og dregur úr eftirspurn eftir nýju starfsfólki í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Íslenskur vinnumarkaður er hins vegar býsna sveigjanlegur og breyttri eftirspurn eftir vinnuafli verður, líkt og gjarnan áður, trúlega mætt að hluta með breytingum í flæði fólks til og frá landinu, atvinnuþátttöku fólks á seinustu stigum starfsævinnar og aukinni sókn í framhaldsnám svo nokkuð sé nefnt.

Krónan heldur sterkari í ár en við væntum

Í ársbyrjun vorum við öllu svartsýnni á gengisþróun krónu á þessu ári en raunin varð enda hafði krónan þá veikst linnulítið frá haustdögum 2022. Hins vegar hafa spár okkar frá og með síðasta vori reynst nærri lagi nú þegar árið er á enda. Um þróun krónu undanfarna mánuði var fjallað í nýlegu Korni en breiðu drættirnir eru þeir að eftir talsverða styrkingu hennar á fyrstu átta mánuðum ársins tók við allsnörp veiking í september, október og framan af nóvember. Á lokavikum ársins hefur gengi krónu hins vegar verið tiltölulega stöðugt og gjaldeyrismarkaður í allgóðu jafnvægi. Skoðun okkar á þróun krónu næsta kastið hefur heldur ekki breyst, og teljum við styrkingu hennar líklegri en hitt á komandi misserum.

Verðbólga þrálátari og vextir hærri

Þótt gengi krónu hafi reynst nokkuð hærra og hagvöxtur verði trúlega minni í ár en við spáðum í ársbyrjun hefur verðbólga þó reynst öllu þrálátari en við væntum. Þar vegur þyngst að laun hafa hækkað nokkru meira en við væntum og verðbólga erlendis var meiri framan af ári. Sýn okkar á verðbólguhorfur var hins vegar þegar í maí orðin býsna nærri lagi og hefur stóra myndin í spám okkar fremur lítið breyst síðan.

Horfur eru á að allhratt dragi úr 12 mánaða takti verðbólgunnar á fyrri helmingi næsta árs enda detta þá út úr þeirri mælingu sverir hækkunarmánuðir frá fyrri hluta þessa árs á sama tíma og stöðugri króna, minni verðbólga á heimsvísu og betra jafnvægi á íbúðamarkaði leiðir til hægari hækkunar Vísitölu neysluverðs á komandi fjórðungum. Hins vegar gæti reynst þrautin þyngri að ná niður verðbólgu úr efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) niður í 2,5% markmiðið sjálft. Því veldur viðvarandi innlendur kostnaðarþrýstingur, ekki síst vegna talsvert mikillar hækkunar launa í spáforsendu okkar líkt og raunin hefur verið síðustu ár.

Þar gæti þó verið ljós við enda ganganna ef marka má nýleg ummæli aðila vinnumarkaðar um samningsmarkmið í komandi kjarasamningum. Náist samkomulag um hækkun launa sem samrýmist framleiðniaukningu vinnuafls að viðbættu 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og á sama tíma haldi fyrirtæki jafnt sem opinberir aðilar aftur af verðhækkun á vörum og þjónustu eftir fremsta megni, er að okkar mati ekkert því til fyrirstöðu að verðbólga geti hjaðnað að markmiði Seðlabankans fyrr en síðar.

Þrálátari verðbólga hefur svo leitt til meiri hækkunar stýrivaxta en við bjuggumst við í byrjun þessa árs eins og sjá má af myndinni. Á vordögum hafði sýn okkar á líklega vaxtaþróun hins vegar færst nálægt því sem raunin varð í ár.

Miðað við nýjustu vísbendingar er ekki útséð um hvort vaxtahækkunarferli Seðlabankans hafi lokið í ágúst síðastliðnum eða hvort enn á eftir að reka smiðshöggið þar á, líkt og við fjölluðum nýverið um. Gangi spár okkar um þróun eftirspurnar, gengis krónu, íbúðaverðs og annarra áhrifaþátta á verðbólgu og verðbólguvæntingar á komandi ári þokkalega eftir eru þó mestar líkur á því að frekari hækkun vaxta verði óveruleg og bundin við fyrsta fjórðung ársins 2024. Síðar á árinu eigum við svo von á því að Seðlabankinn ráðist í varfærið lækkunarferli en vextir munu þó líkast til verða fremur háir allt næsta ár.

Speglast þetta ár í því næsta?

Þegar öllu er á botninn hvolft er stóra myndin af hagþróun ársins í allgóðum takti við spár okkar í ársbyrjun. Hagkerfið hefur kólnað eftir því sem á árið leið, útflutningur að sama skapi tekið við sem megin aflvaki vaxtar en verðbólgan reynst þrálát og vaxtastigið hækkað umtalsvert á árinu. Næsta ár verður svo væntanlega að mörgu leyti spegilmynd ársins sem nú rennur sitt skeið: Vöxtur glæðist væntanlega eftir því sem líður á árið, eftirspurn færist í aukana á sama tíma og hægir á útflutningsvexti, verðbólga hjaðnar og vextir fylgja á endanum í kjölfarið. Horfur fyrir 2024 eru því þrátt fyrir allt nokkuð hagfelldar því stundum er sígandi lukka best.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband