Horfur eru á að allhratt dragi úr 12 mánaða takti verðbólgunnar á fyrri helmingi næsta árs enda detta þá út úr þeirri mælingu sverir hækkunarmánuðir frá fyrri hluta þessa árs á sama tíma og stöðugri króna, minni verðbólga á heimsvísu og betra jafnvægi á íbúðamarkaði leiðir til hægari hækkunar Vísitölu neysluverðs á komandi fjórðungum. Hins vegar gæti reynst þrautin þyngri að ná niður verðbólgu úr efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) niður í 2,5% markmiðið sjálft. Því veldur viðvarandi innlendur kostnaðarþrýstingur, ekki síst vegna talsvert mikillar hækkunar launa í spáforsendu okkar líkt og raunin hefur verið síðustu ár.
Þar gæti þó verið ljós við enda ganganna ef marka má nýleg ummæli aðila vinnumarkaðar um samningsmarkmið í komandi kjarasamningum. Náist samkomulag um hækkun launa sem samrýmist framleiðniaukningu vinnuafls að viðbættu 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og á sama tíma haldi fyrirtæki jafnt sem opinberir aðilar aftur af verðhækkun á vörum og þjónustu eftir fremsta megni, er að okkar mati ekkert því til fyrirstöðu að verðbólga geti hjaðnað að markmiði Seðlabankans fyrr en síðar.
Þrálátari verðbólga hefur svo leitt til meiri hækkunar stýrivaxta en við bjuggumst við í byrjun þessa árs eins og sjá má af myndinni. Á vordögum hafði sýn okkar á líklega vaxtaþróun hins vegar færst nálægt því sem raunin varð í ár.