Skemmst er frá því að segja að vaxandi verðbólga ásamt batamerkjum í hagkerfinu, sér í lagi hvað varðar innlenda eftirspurn, urðu til þess að bankinn réðist í vaxtahækkun í maí sl. Seðlabankinn hefur alls hækkað stýrivexti um 1,25 prósentur frá því í ársbyrjun og eru meginvextir bankans nú 2,0%.
Eftir því sem skýrari merki urðu um bata í hagkerfinu og þrálátari verðbólguþrýsting uppfærðum við einnig stýrivaxtavæntingar okkar til samræmis. Teljum við nú horfur á því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans muni halda áfram sleitulítið fram á árið 2023 og að bankinn muni fyrst láta staðar numið um mitt þarnæsta ár þegar stýrivextirnir eru komnir í 3,5%.
Batnandi hagkerfi er best að lifa
Sem betur fer endurspeglar munurinn á spám okkar í upphafi árs og þróuninni á árinu að mestu leyti kraftmeiri efnahagsbata en við bjuggumst við. Þótt þrálát verðbólga og spenna á íbúðamarkaði séu vissulega áhyggjuefni um þessar mundir eru það þó ákjósanlegri áskoranir en þrálátt atvinnuleysi og dræmur eftirspurnarvöxtur hefðu verið. Góðu heilli er líka fjárhagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera á heildina litið traustur og bendir flest til þess að þessir aðilar séu ágætlega í stakk búnir til að leggja sitt að mörkum við frekari bata efnahagslífsins á komandi ári.
Við erum því eftir sem áður bjartsýn á efnahagshorfurnar á komandi ári þótt vissulega séu snúnar áskoranir framundan á borð við að kalla fram betra jafnvægi á íbúðamarkaði og feta meðalveginn í hagstjórn með vaxandi aðhaldi án þess að efnahagsbatanum sé stefnt í voða. Síðast en ekki síst verður flókið, en að sama skapi mikilvægt, að ná lendingu í komandi kjarasamningum sem varðveitir kaupmátt launþega, samrýmist á sama tíma afar mismunandi stöðu innlendra fyrirtækja að áliðnum faraldri og snýr ekki áfram hinni gamalkunnu verðbólguskrúfu hækkandi launa, gengislækkunar krónu og þrálátrar verðbólgu. Óskandi er að jafn vel gangi að vinna úr þessum verkefnum og glíman við efnahagslegar afleiðingar faraldursins hefur gengið í stórum dráttum.