Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

2019: Ár hinnar stöðugu krónu

Þrátt fyrir sviptingar í efnahagslífinu hefur gengi krónu á yfirstandandi ári verið stöðugra á ýmsa mælikvarða en nokkurt annað ár frá því gengi krónu var látið fljóta í byrjun aldarinnar. Jafnvægi hefur ríkt á gjaldeyrismarkaði og ágætar líkur virðast vera á því að svo gæti orðið enn um sinn.


Líklega hafa fáir átt von á því í byrjun ársins 2019 að krónan yrði sérlega stöðug þetta árið. Verulegar blikur voru á lofti í helstu útflutningsgreinum, talsverðar breytingar höfðu orðið á gengi krónu á seinni helmingi ársins 2018 og umtalsverðar líkur virtust vera á því að óróleiki á vinnumarkaði gæti endað með snúningi gamalkunnrar skrúfu launabólgu, verðbólgu og gengisfalls.

Raunin hefur heldur betur orðið önnur. Árið sem nú er að renna sitt skeið hefur verið ár hinnar stöðugu krónu og gengissveiflur þær minnstu í íslensku hagkerfi frá því það var njörvað í ströng gjaldeyrishöft fyrr á áratugnum. Þrátt fyrir ýmsar fréttir og atburði sem hér á árum áður hefðu líklega hreyft verulega við gengi krónunnar hafa gengissveiflur verið býsna hóflegar, velta á millibankamarkaði með minna móti og Seðlabankinn lítið þurft að skipta sér af markaðnum.

Eftir sleitulitla gengisveikingu frá ágústmánuði til nóvemberloka 2018 komst meira jafnvægi á gengi krónu í lok síðasta árs. Síðan þá hefur gengið í rauninni sveiflast á tiltölulega þröngu bili í kring um vísitölugildið 180 miðað við gengisvísitölu Seðlabankans. Raunar má telja á fingrum annarar handar þá daga þar sem gengið hefur vikið meira en 3% frá meðalgengi ársins og þegar slíkt hefur gerst hefur gengið fljótt snúið aftur inn fyrir framangreint bil.

Þrátt fyrir að þau gjaldeyrishöft sem einkenndu fyrri helming áratugarins hafi að mestu verið afnumin þegar komið var fram á árið 2018 hafa sveiflur í ár í rauninni verið minni en á haftatímanum ef horft er á heildarmyndina eftir mismunandi mælikvörðum. Má þar nefna að miðað við mánaðarmeðaltöl var staðalfrávik gengisvísitölunnar á undanförnum áratug einungis minna á árinu 2014 en í ár, og aðeins á árinu 2017 var gengisbreyting frá upphafi árs til ársloka minni en á árinu sem nú er að líða.

Það gerir þennan stöðugleika á yfirstandandi ári enn sérstakari að Seðlabankinn hefur lítið skipt sér af gjaldeyrismarkaði í ár, öfugt við framangreind stöðugleikaár. Til að mynda var velta bankans á millibankamarkaði með gjaldeyri ríflega 14 ma.kr. á fyrstu 11 mánuðum ársins, sem samsvarar rúmum 8% af heildarveltu á millibankamarkaði. Þegar hæst hóaði um miðbik áratugarins var hins vegar meirihluti veltu á millibankamarkaði tilkominn vegna viðskipta Seðlabankans og árið 2017 var bankinn enn aðili að u.þ.b. 20% viðskipta á markaði. Seðlabankinn hefur því lítið þurft að beita sér á markaði þetta árið til að draga úr óhóflegum gengissveiflum þrátt fyrir að gjaldeyrishöft, sem áður takmörkuðu verulega viðskipti á þeim markaði, séu að mestu úr sögunni. Þar á ofan var bindiskylda á innflæði vegna nýfjárfestingar í vaxtaberandi eignum færð niður í núll snemma á árinu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að fyrsti áratugur þessarar aldar var að langstærstum hluta tími umtalsverðra sveiflna á gengi krónu. Í sem stystum orðum er því niðurstaðan sú að stöðugleiki í gengi krónu árið 2019 er einn sá mesti síðan fastgengisstefna var við líði hér á landi fram til ársins 2001.

Er loksins komið jafnvægi á markaði?

En hver er skýringin á þessari lygnu á gjaldeyrismarkaði þetta árið? Í sem stystu máli virðist sem annars vegar sé núverandi gengi innan þess raungengisbils sem samræmist innra og ytra jafnvægi í hagkerfinu, og hins vegar hafi helstu aðilar á markaði trú á að slíkt jafnvægi sé til staðar og muni líklega ríkja enn um sinn.

10% gengislækkun krónu á seinni helmingi síðasta árs virðist hafa hjálpað talsvert til að búa hagkerfið í haginn fyrir það bakslag sem útflutningsgreinar hafa orðið fyrir í ár. Viðhorfskannanir meðal ferðamanna benda til þess að fleiri telji Íslandsferð peninganna virði en áður, meðaldvalartími hefur lengst og útgjöld ferðamanna hafa að jafnaði aukist, mælt í þeirra heimamynt. Ferðaþjónustan er með öðrum orðum samkeppnishæfari en hún var fyrir ári síðan hvað kostnað og verð varðar. Gengislækkunin hefur einnig stutt við samkeppnisstöðu annarra útflutningsatvinnugreina og beint innlendri eftirspurn í auknum mæli að heimatilbúnum vörum og þjónustu.

Viðskiptaafgangur stefnir í að verða meiri í ár en í fyrra þrátt fyrir ágjöf í ferðaþjónustunni og loðnubrest í byrjun árs. Jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir óreglulegum liðum og gengisbreytingum krónu er ljóst að gjaldeyrisinnflæði vegna utanríkisviðskipta var umtalsvert þetta árið. Þær tæplega 2 milljónir ferðamanna sem sóttu landið heim skiluðu þar umtalsverðum tekjum, auk þess sem sjávarútvegurinn átti hið þokkalegasta ár að loðnubresti frátöldum og iðnaðarframleiðsla hélt að mestu sínu striki. Líklega mun viðskiptaafgangur ársins verða á bilinu 120 – 130 ma.kr., en til samanburðar var afgangurinn tæplega 80 ma.kr. í fyrra og rétt um 100 ma.kr. árið 2017.

Auk viðskiptaafgangs hefur hrein nýfjárfesting erlendra aðila skilað nokkru gjaldeyrisinnflæði síðustu árin og svo var einnig þetta árið.

Það sem þyngst vegur á móti í gjaldeyrisútflæði eru verðbréfafjárfestingar lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta út fyrir landsteinana í því skyni að dreifa áhættu. Gjaldeyriskaup lífeyrissjóða námu 110 mö.kr. í fyrra samkvæmt tölum frá Seðlabankanum og ekki er óvarlegt að áætla m.v. fyrirliggjandi gögn að þau gætu orðið á bilinu 120 – 140 ma.kr. þetta árið.

Vissulega eru margir fleiri þættir sem hafa áhrif á gjaldeyrisflæði á markaði. Má þar nefna nýjar erlendar lántökur og afborganir, forðahreyfingar Seðlabankans og breytingar á gjaldeyrisjöfnuði fjármálastofnana. Einfaldaða myndin sem dregin er upp hér að ofan gefur þó að okkar mati allgóða mynd af undirliggjandi meginstraumum á markaðnum og þar má færa rök fyrir að þokkalegt jafnvægi hafi ríkt þetta árið.

Eftir því sem þessi jafnvægismynd hefur skýrst virðist sú skoðun smám saman hafa fest í sessi á markaði að þetta ástand sé komið til að vera næsta kastið, enda virðist ekkert sérstakt á sjóndeildarhringnum sem muni breyta myndinni umtalsvert. Áfram eru horfur á talsverðum viðskiptaafgangi, lífeyrissjóðir munu halda áfram að safna erlendum eignum í sarpinn og ágætar líkur eru á að fjárfestingartækifæri hérlendis muni a.m.k. reynast nægilega áhugaverð til að afstýra verulegu hreinu útflæði vegna sölu erlendra aðila á innlendum eignum. Þar á ofan hefur Seðlabankinn enn myndarlegum gjaldeyrisforða úr að spila í því skyni að afstýra verulegum skammtímasveiflum og þjóðarbúið í heild á erlendar eignir umfram skuldir svo nemur nærri fjórðungi af landsframleiðslu. Það eykur traust á krónunni og minnkar hættu og skyndilegum fjármagnsflótta og gjaldeyriskreppu.

Það eru því allgildar ástæður fyrir því að stöðugleiki einkenndi krónuna á árinu 2019 þrátt fyrir sviptingar í efnahagslífinu. Raunar gæti árið 2020 einnig reynst áþekkt hvað gengið varðar ef ekki verða óvæntar og umtalsverðar breytingar á helstu áhrifaþáttum sem taldir eru upp hér að framan. Hér ber hins vegar að slá fast þann varnagla að gengi gjaldmiðla deilir eðliseiginleikum kvikasilfurs að því leyti að sé reynt að festa á því fingur er það þeim mun líklegra til að skreppa undan með ófyrirséðum hætti.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband