Skattgreiðslur og skerðingar

Skatta- og almannatryggingakerfin geta reynst flókin og taka ört breytingum. Þau geta auk þess haft mikil áhrif á afkomu okkar á lífeyrisaldri.

Þess vegna leggjum við áherslu á að fræða viðskiptavini okkar um áhrif skatta og skerðinga á sparnað.

Nokkrar staðreyndir um skatta og skerðingar

  • Skerðingar ellilífeyris TR og fjármagnstekjuskattur taka mið af tekjum, ekki eignum

  • Úttekt viðbótarlífeyris og ávöxtun hans hefur engin áhrif á ellilífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar í dag en úttekt annarar séreignar getur þó skert greiðslur

  • Ellilífeyrir TR skerðist ekki um krónu á móti krónu og greiðslur lífeyrissjóða skerðast ekki vegna annarra tekna

  • Mikilvægt er að skila tekjuáætlun til TR árlega til að tryggja að réttar greiðslur berist frá stofnuninni

  • Frítekjumark launa vegna ellilífeyris TR eru 2.400.000 kr. á ári eða 200.000 kr. á mánuði

Hvaða áhrif hafa vextir á greiðslur frá TR?


Ekkert frítekjumark er í gildi vegna fjármagnstekna hvað varðar svokallaðan ellilífeyri TR. Sérstakt frítekjumark er þó vegna fjármagnstekna hjá þeim sem fá örorkugreiðslur frá stofnunni eða taka þá í greiðslum vegna dvalar á hjúkrunarheimilum. Nemur frítekjumarkið 98.640 kr. á mann á ári.

Ellilífeyrir TR skerðist um 45% vegna allra tekna, en 25.000 kr. mánaðarlegt frítekjumark er á heildartekjum og 200.000 að auki vegna atvinnutekna (eða 2.400.000 kr. á ári, eftir því sem hentar betur). Heimilisuppbót, sem greidd er þeim sem búa einir, skerðist um 11,9% vegna allra tekna, m.a. fjármagnstekna.

Gott er þó að hafa í huga að þar sem Tryggingastofnun skerðir ekki um krónu á móti krónu eru ellilífeyrisgreiðslur stofnunarinnar ekki skertar vegna allra vaxta eða ávöxtunar heldur einungis að hluta. Misskilningur varðandi þessi mál hefur oft valdið því að fólk telji hagkvæmara að fela fjármuni fyrir stofuninni eða ávaxta þá ekki.

Greiði ég 22% fjármagnstekjuskatt af öllum vöxtum?


Bæði já og nei. Þar sem frítekjumark fjármagnstekna hjá skattinum nemur 300.000 kr. á mann og 600.000 kr. á hverja fjölskyldu greiðum við nokkuð lægri skattprósentu þegar allt hefur verið gert upp og skattur af frítekjumarkinu hefur verið endurgreiddur. Vextir umfram frítekjumarkið bera 22% fjármagnstekjuskatt.

Fjármagnstekjuskattur er staðgreiddur þegar vextir eru greiddir, en frítekjumarkið fæst endurgreitt með álagningu.

Ekki er greiddur neinn fjármagnstekjuskattur af séreignarsparnaði.

Sé fé ávaxtað í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er enginn fjármagnstekjuskattur greiddur fyrr en við úttekt.

Nánar um fjármagnstekjuskatt á vef RSK.

Skerðing TR


Hver er skerðing TR vegna tekna?

Skerðingar ellilífeyris TR nema 45% vegna allra tekna. 25.000 kr. mánaðarlegt frítekjumark er þó á heildartekjum og 200.000 kr. að auki vegna launa. Skerðingar eru með öðrum hætti hjá öryrkjum undir 67 ára aldri og hjá þeim sem dvelja á stofnun. Nánari upplýsingar um slíkt má finna á vef TR.

Einnig er mikilvægt að gleyma ekki að skila tekjuáætlun til TR. Efst í hægra horni forsíðu www.tr.is er smellt á „Mínar síður“. Frekari leiðbeiningar má finna hér fyrir neðan.

Nákvæm tekjuáætlun lágmarkar líkur á ónákvæmum greiðslum TR og leiðréttingum eftir á.

Hagnýtar upplýsingar um TR

Að flýta eða seinka töku lífeyris hjá TR


Sækja þarf sérstaklega um töku lífeyris hjá Tryggingastofnun og gefur stofnunin sér allt að 5 vikna frest þar til greiðslur fara að berast.

Gott er að muna að undirritaðri umsókn þarf að fylgja tekjuáætlun og staðfesting á að sótt hafi verið um greiðslur úr lífeyrissjóði.

Árið 2017 voru heimildir til úttektar rýmkaðar og nú er hægt að sækja um lífeyri frá Tryggingastofnun frá 65 ára til 80 ára aldurs.

Þeir sem kjósa að flýta eða fresta töku lífeyris (miðað við lífeyrisaldur hverju sinni) fá varanlega skerðingu eða aukningu á réttindum hjá TR.

Athugið að í mörgum tilvikum getur borgað sig að geyma umsókn um lífeyri hjá TR þar til farið er af vinnumarkaði þar sem greiðslur Tryggingastofnunar eru tekjutengdar.

Upplýsingar og eyðublöð

Hálfur lífeyrir


Getur hentað að sækja hálfan lífeyri í stað fulls?

65 ára og eldri geta oft sótt um greiðslur hálfs lífeyris hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun. Gerð er krafa um að viðkomandi sé á vinnumarkaði en að hámarki í hálfu starfi. Einhverjir lífeyrissjóðir heimila ekki úttekt hálfs lífeyris og í öðrum tilvikum getur verið hægt að sækja hálfan lífeyri enn fyrr á lífsleiðinni.

Fyrirkomulag hálfs lífeyris er á þá leið að lífeyrisréttindum er í raun skipt í tvennt. Helmingur bíður betri tíma, þegar sótt er um fulla töku lífeyris, en greiðslur hefjast úr hinum helmingnum.

Greiðslur hálfs lífeyris frá Tryggingastofnun eru tekjutengdar, en þó með mun hærra frítekjumarki en almennt gengur og gerist hjá stofnuninni. Þannig hefjast skerðingar ekki fyrr en tekjur umsækjanda eru komnar yfir 325.000 kr. og skerðast þá um 45%.

Hálfur lífeyrir getur til að mynda hentað þeim sem hafa áhuga á að minnka við sig starfshlutfall en bæta sér upp tekjutapið sem því fylgir.

Nánari upplýsingar um hálfan lífeyri

Skerðing ellilífeyris vegna tekna
45%
Skerðing heimilisuppbótar
11,9%
Skerðing vegna úttektar viðbótarlífeyrissparnaðar
0%
Frítekjumark heildartekna á mánuði
25.000 kr.
Frítekjumark atvinnutekna á mánuði
200.000 kr.

Hvað ef ég flyt til útlanda?


Þeir sem búsettir eru í öðru EES landi halda rétti sínum til greiðslna frá Tryggingastofnum, öðrum en bótum sem taldar eru til félagsaðstoðar.

Ef flutt er út fyrir EES svæðið þarf að leita til tryggingastofnunar í viðkomandi landi.

Ef ekki er tekin upp búseta erlendis haldast réttindi þó alltaf.

Ítarlegar og góðar upplýsingar um flutning úr landi má nálgast á vef Tryggingastofnunar:

Flutningar frá Íslandi

Fyrirframgreiddur arfur


Skattaleg meðhöndlun fyrirframgreidds arfs er ekki alveg sú sama og þegar dánarbú er gert upp.

Ekkert skattfrelsi er á fyrirframgreiddum arfi og maki er ekki undanþeginn erfðafjárskatti, sem nú er 10%.

Heimilt er að greiða þeim fyrirframgreiddan arf sem hafa rétt til arfs skv. erfðafjárlögum. Fylla þarf út erfðafjárskýrslu og skila erfðafjárskatti áður en gengið er frá arfi.

Nánar um fyrirframgreiddan arf

Þátttaka í dvalarkostnaði


Þátttaka í kostnaði við dvöl á dvalar- eða hjúkrunarheimili er tekjutengd.

Greiðsluþátttaka verður ekki hærri en 475.451 kr. á mánuði. Séu mánaðartekjur íbúa á dvalarheimili yfir 107.165 kr. eftir skatt á mánuði fara þær tekjur sem umfram eru (upp að 582.616 kr. eftir skatt á mánuði) í greiðsluþátttöku.

Úttekt séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á þátttöku í dvalarkostnaði og eru frítekjumörk fjármagnstekna 98.640 kr. á ári og atvinnutekna 1.315.200 kr. á ári, eða 109.600 kr. á mánuði.

Þar sem þessi mál geta reynst nokkuð flókin bendum við á ítarlegar upplýsingar á vef Tryggingastofnunar. Þær má nálgast hér fyrir neðan. 

Nánar um þátttöku í dvalarkostnaði

Viltu vita meira?

Hér eru nokkur atriði sem gætu svarað þínum spurningum. Þú getur líka rætt við ráðgjafa á netspjallinu eða hringt í ráðgjafaver. Við svörum um hæl.